Svipmyndir frá sjómannadeginum – heiðranir

Fjölmennt á vel heppnuðum sjómannadegi í Hafnarfirði

Sjómannadagurinn var haldinn hátíð­legur í Hafnarfirði á nokkuð hefð­bund­inn hátt en þó var fleira í boði en oft áður. Hátíðarsvæðið teygðist frá Óseyrarbryggju yfir að Íshúsinu og svæði Siglingaklúbbsins Þyts. Félagsmenn Þyts voru með öfluga kynningu á starfi félagsins og leyfðu fólki að prófa að róa á kanóum og fleiri bátum. Opið var í Íshúsinu á ný og fjölmennt var í húsinu. Fyrir utan gátu krakkar og foreldrar neglt saman lita báta sem þeir létu fljóta í fiskikari sem fljótlega var yfirfullt.

Tónlist ómaði um svæðið, vöfflu­lyktin angaði og fólk beið í röðum til að komast í siglingu aðeins út í fjörðinn. Björgunarsveit Hafnarfjarðar bauð upp á kassaklifur, klifur og ýmis vatnaleik­tæki og allir virtust skemmta sér vel. Svo mikil var þátttakan í kaffihlaðborði Kænunnar að þar var allt uppselt kl. 4.

Sjómenn heiðraðir

Fjórir sjómenn voru heiðraðir en þeir voru.

Gylfi Kjartansson, Guðrún Brynjólfsdóttir, Gunnar Guðmundsson, Jenný Guðmundsdóttir, Páll Jónsson Egilsson, Auður Sigurjónsdóttir, Jenný Þórisdóttir og Guðmundur Hjörleifsson.

Gylfi Kjartansson skipstjóri, fædd­ist á Suðurgötu 10 í Hafnarfirði, þann 6. október 1951. Hann byrjaði til sjós 15 ára gamall á vélbátnum Mími frá Hafnarfirði. Næstu ár var hann á vertíðarbátunum Ársæli Sigurðssyni og Arnarnesi. Eftir það fór Gylfi á ýmsa togara, m.a. síðutogarana Neptúnus og Rán og síðar skuttogarana Maí og Júní héðan frá Hafnarfirði. Gylfi fór í Stýrimannaskólann og útskrifaðist þana árið 1975. Hann var stýrimaður á Ráninni, Bjarna Herjólfssyni og síðar afleysingaskipstjóri á Maí, Víði og Sjóla. Hann fór á togarann Gnúp GK 11 árið 1996, fyrstu tvö árin sem stýri­maður og afleysingaskipstjóri en hefur verið þar skipstjóri síðustu 20 árin og er þar enn starfandi. Gylfi er kvæntur Guðrúnu Brynjólfsdóttur.

Gunnar Guðmundsson sjómaður, fæddist þann 11. október 1950 á Ísafirði. Hann ólst upp á Ísafirði til 24 ára aldurs en fluttist þá til Hafnarfjarðar. Hann hóf sjómennsku 16 ára gamall fyrir vestan á hinum ýmsu bátum og sjálfur var hann með eigin trilluútgerð í 27 ár. Síðasta áratuginn hefur Gunnar starfað við beitningu og verið á sjó hjá Hinriki Kristjánssyni og hann er enn að sækja sjóinn. Gunnar er kvæntur Jenný Guðmundsdóttur.
Páll Jónsson Egilsson, yfirvélstjóri, fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð þann 7. september árið 1950. Hann byrjaði á sjó með föður sínum strax eftir fermingu og var með honum í tvö sumur á skaki. Síðan lá leiðin á vertíðarbátana Framnes og Sléttanes. Páll fór í vélskólann veturinn 1970 og eftir að hafa lokið námi árið 1974 lá leiðin á skuttogarana Framnes, Maí og síðar frystitogarann Ými. Páll fór á varðskipin árið 1999 og er í dag yfirvélstjóri á varðskipinu Tý. Eigin­kona Páls var Auður Guðmunds­dóttir sem lést 2016. Sambýliskona Páls er Anna Sigurjónsdóttir.

Guðmundur Hjörleifsson, mat­reiðslu­meistari, fæddist í Hafnarfirði þann 20. nóvember árið 1948. Hann byrjaði 14 ára gamall til sjós, sem vélamessi hjá Eimskip á Goðafossi. Síðar lá leiðin á Hótel Sögu þar sem Guðmundur lærði matreiðslu. Árið 1973 fór hann aftur á sjóinn og hefur starfaði þar nær óslitið í liðlega 4 áratugi til ársins 2014, lengst af á Sjóla og Málmey frá Sauðárkróki. Eiginkona Guðmundar er Jenný Þórisdóttir.

Stefnir united sigraði í róðrarkeppninni

Karlar:
1. Stefnir united 1:13,44
2. Crossfit Hafnarfjörður 1:24,44
3. Trefjar 1:25,63
4. Hlaupahópur FH 1:30,77

Konur:
Crossfit Hafnarfjörður 1:29,56

Vonast er eftir að fleiri kvennalið taki þátt að ári í þessari skemmtilegu keppni.