fbpx
Föstudagur, febrúar 23, 2024
HeimFréttirSr. Sigríður Kristín hefur sagt upp í Fríkirkjunni

Sr. Sigríður Kristín hefur sagt upp í Fríkirkjunni

Sr. Sigríður Kristín Helgadóttir hefur sagt upp störfum hjá Fríkirkjunni í Hafnarfirði eftir nokkuð átakatímabil þar sem endað var með að setja báða presta kirkjunnar í 80% starfshlutfall og ráða framkvæmdastjóra í hálft starf. Hefur nafn hennar þegar verið tekið út af heimasíðu kirkjunnar en hún hefur gegnt stöðu safnaðarprests og á hún inni þó nokkuð sumarfrí svo formlega er störfum hennar hjá kirkjunni ekki lokið. Tilkynnt er um uppsögn hennar á síðunni en ástæðna er ekki getið.

Er Sigríður Kristín ein af 10 umsækjendum um stöðu í Breiðabólsstaðarsókn í Suðurprófastsdæmi en umsóknarfrestur rann út á miðnætti 13. júlí.

Starfið í Fríkirkjunni hefur verið farsælt á undanförnum áratugum þar sem sr. Einar Eyjólfsson hefur þjónað frá 1984 og sr. Sigríður frá árinu 2000. Hafði hún verið fermingarbarn hjá sr. Einari og starfaði síðar í barna- og unglingastarfi kirkjunnar áður hún var ráðin sem prestur í hlutastarf. og síðar í fullt starf. Hefur fjölgað stöðugt í söfnuðinum og aðsókn í fermingarfræðslu hefur verið sívaxandi og umfram fjölda í söfnuðinum.

Prestar Fríkirkjunnar í Hafnarfirði, sr. Einar Eyjólfsson og sr. Sigríður Kristín Helgadóttir.

Svo virðist hins vegar sem ákveðin spenna hafi myndast vegna verkaskiptingar og fleiri atriða sem sr. Sigríður óskaði eftir að tekið væri á. Var í framhaldi af því skipuð nefnd til að fara yfir málin og koma með tillögur til úrbóta. Fór sr. Sigríður í veikindaleyfi frá áramótum eða um það bil þegar sú nefnd var skipuð og hefur ekki komið til starfa síðan.

„Já við erum eiginlega í hálfgerðu sjokki í safnaðarstjórninni eftir að Sigga tók þá ákvörðun að segja upp eftir langt veikindaleyfi,“ segir Einar Sveinbjörnsson, formaður safnaðarstjórnar í samtali við Fjarðarfréttir. „En það er ekki hægt að segja annað en að við höfum reynt flest til að koma til móts við hana. Eitt af því var betra utanumhald og var ráðning framkvæmdastjóra í hálft starf viðleitni í þá veru.“

„Um leið vildum við bæta skipulag í starfi prestanna og taka upp nánara samstarf um vaktir við presta þjóðkirkjunnar í Hafnarfirði. 80% starfshlutfall var tillaga borin undir prestana og samþykkt af þeirra hálfu jafnhliða bættu skipulagi og utanumhaldi framkvæmdastjóra.

Sigga er góður prestur og starfaði af einlægni fyrir Fríkirkjuna frá því um 2000,“ segir Einar safnaðarformaður. „Hún valdi hins vegar þessa leið og ég veit að það var henni ekki auðvelt.“

Syrgir þjónustuhlutverkið

„Ég syrgi sárt þjónustuhlutverkið þó svo ég syrgi ekki vinnustaðinn sem slíkan. En nú er nýtt upphaf.  Vonandi lægja nú öldur á öllum vígstöðvum, Guð er góður og með hans hjálp finn ég leið,“ segir Sigríður í samtali við Fjarðarfréttir.

Átti hún í lok júní samtal við safnaðarstjórnarfólk og framkvæmdastjóra og segir hún að það samtal hafi ekki verið gott og hafi hún eftir hann misst svefn og fengið sjóntruflanir og segir hún að málið hafi tekið mjög á sig.

Sr. Sigríður Kristín hefur verið mjög vinsæll prestur, bæði hjá ungum sem öldnum en hún þjónaði m.a. heimilisfólki á Hrafnistu við góðan orðstír. Þá hefur hún einnig verið eftirsótt til athafna, bæði innan og utan safnaðarins.

Í framhaldi af því hafi hún tekið ákvörðun í samráði við sína fjölskyldu um að þessum kafla væri lokið.

„Ákvörðunin var mjög erfið, ég sé eftir samstarfsfólki sem hefur verið mér afar kært og frábærum söfnuði. Ég er þakklát og horfi fram á veginn og tek lærdóminn og allt það góða með mér frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði,“ segir sr. Sigríður Kristín og segist horfa til þess að eiga kveðjustund í kirkjunni á næstu vikum.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2