Smábátaeigendur telja að verið sé að skerða hafnaraðstöðuna of mikið

Aðkoma að flotbryggjum verði skert verulega

Rammaskipulag Flensborgarhafnar

Smábátafélagið Báran hefur gert alvarlegar athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar vegna Flensborgarhafnar. Hefur félagið sent inn athugasemdir í 6 liðum og hefur Landssamband smábátaeigenda tekið undið athugasemdirnar.

Aðalskipulagsbreytingin sem gerðar eru athugasemdir við er Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025, Hafnarsvæði – þétting byggðar Suðurhöfn, Flensborgarhöfn og Hamarshöfn en hún hefur verið til sýnis frá 16. mars sl. og verður til sýnis til morgundagsins, 27. apríl.

Breytingin nær til suður og austur hluta Suðurhafnar, Flensborgarhafnar og strandlengju meðfram Strandgötu í átt að miðbæ Hafnarfjarðar. Í tillögunni felst að mörkuð er stefna um þéttingu byggðar á svæðinu og breytt landnotkun í samræmi við stefnuna. Fyrir liggur Rammaskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis, sem haft er til viðmiðunar við meginhluta aðalskipulagsbreytingarinnar.

Breytingartillaga á aðalskipulagi fyrir Hafnarsvæði – Flensborgarhöfn og hluta Suðurhafnar

Helstu breytingarnar

  • Hafnarsvæði H2, sem afmarkast af Óseyrarbraut og Strandgötu út fyrir slipp verður skilgreint sem miðsvæði M5, samtals 41 þúsund m². Aðgengi að flotbryggjunum verður því ekki lengur um hafnarsvæði.
  • 68 þúsund m² svæði við Fornubúðir verður breytt úr hafnarsvæði í miðsvæði M7 en þar er m.a. Hafrannsóknarstofnun og framtíðarsvæði Tækniskólans.
  • 39 þúsund m² svæði milli Hvaleyrarbrautar og Óseyrarbrautar breytt í íbúðasvæði ÍB15.
  • 49 þúsund m² svæði milli Hvaleyrarbrautar og Lónsbrautar verður breytt í miðsvæði M6.

Í sátt við aðliggjandi hverfi og hafnarstarfsemi

Í athugasemdum Bárunnar er bent á að löng hefð sé fyrir smábátaútgerð í Hafnafirði. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafi í samvinnu við smábátasjómenn byggt upp aðstöðu fyrir smábáta sem er á allan hátt til fyrirmyndar og þá aðstöðu beri að varðveita og bæta enn frekar sé þess nokkur kostur.

Segir þar að það sé mikið áhyggjuefni að í nýja aðalskipulaginu sé verið að rýra aðgengi sjómanna að smábátahöfninni. Þetta sé þeirra vinnustaður og það megi ekki gerast.

Gerð er athugasemd við það að götur og bílastæði við flotbryggjurnar verði ekki til staðar í nýju skipulagi og aðgengi skert. Segir í athugasemdinni að eigendur báta þurfi að geta unnið við báta sína og nýtt aðkeypta þjónustu og gott aðgengi sé nauðsynlegt ekki síst í vondum veðrum þegar fylgjast þurfi með bátunum.

Vilja sjómenn að rampur til sjósetninga fái að vera áfram á sínum stað og að hægt verði áfram að sinna viðhaldi og styttri viðgerðum á bátum við sk. Skeljungsbryggju.

Telja þeir að tillagan sé ekki gerð í sátt við aðliggjandi hverfi og hafnarstarfsemi eins og lesa megi í gögnum með tillögunni.

Hugmyndir um uppbyggingu við Flensborgahöfn

Flensborgarhöfn sé Hafnarfjarðarbæ til mikil sóma

Landssambandi smábátaeigenda (LS) tekur heilshugar undir athugasemdir smábátaeigenda í 6 töluliðum sem sendar hafa verið til umhverfis- og skipulagssviðs. Vekur LS athygli á að Flensborgarhöfn njóti mikils velvilja hjá smábátaeigendum um land allt og sé Hafnarfjarðarbæ til mikils sóma.

Aðalskipulagstillöguna má skoða hér.

Ef almenningur vill kynna sér breytingarnar eru þetta skjölin sem sýnd eru. Ekkert er gert til að lýsa því hvaða gögn þetta eru, né hvað megi finna í þeim.

Ummæli

Ummæli