fbpx
Fimmtudagur, júní 13, 2024
HeimFréttirSkólamálTveggja hæða Tæknifræðisetur HÍ í Menntasetrinu

Tveggja hæða Tæknifræðisetur HÍ í Menntasetrinu

Til stendur að stækka Tæknifræðisetur Háskóla Íslands í Menntasetrinu við Lækinn í Hafnarfirði í kjölfar þess að nemendum í tæknifræðinámi hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum misserum.

Rúm þrjú ár eru síðan nám í tæknifræði var flutt frá Ásbrú í Reykjanesbæ í Menntasetrið við Lækinn. Markmiðið með flutningunum var m.a. að efla enn frekar umgjörð námsins og um leið leggja sterkan grunn að styttra fagháskólanámi í tæknigreinum. Jafnframt var tilgangurinn að fjölga nemendum í tæknifræði enda eftirspurn eftir fólki með slíka menntun vaxandi í íslensku samfélagi.

Fjöldi nemenda hefur tvöfaldast á þremur árum

Við Tæknifræðisetrið er annars vegar boðið upp á þriggja anna diplómanám í tæknigreinum á fagháskólastigi, sem veitir aðgang að öðru námi á háskólastigi, og hins vegar BS-nám í tæknifræði sem heyrir formlega undir Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands.

Uppbygging námsins á nýjum stað hefur verið undir forystu Karls Sölva Guðmundssonar, prófessors við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands sem jafnframt er forstöðumaður Tæknifræðisetursins. Frá því að flutningum í Menntasetrið lauk fyrir um þremur árum hefur námið vaxið og dafnað. Sextíu nemendur stunda nú nám í tæknifræði og hefur fjöldinn nær tvöfaldast frá árinu 2017. Það er ekki síst athyglisvert þar sem tækifæri til kynningar á náminu hafa verið fá á undanförum misserum vegna heimsfaraldursins. Umsóknir nýnema hafa jafnframt rúmlega tvöfaldast frá flutningi námsins í Hafnarfjörð en þess má geta að fyrstu nemendurnir sem innrituðust eftir flutninginn munu útskrifast í ár.

Spár um áframhaldandi fjölgun kalla á stækkun húsnæðis

Spár gera enn fremur ráð fyrir áframhaldandi fjölgun nemenda á næstu árum og því var ljóst að bregðast þurfti við með stækkun húsnæðis fyrir starfsemina. Tæknifræðisetrið hefur haft afnot af einni hæð í húsnæði Menntasetursins við Lækinn samkvæmt samningi Háskóla Íslands og Hafnarfjarðarbæjar frá árinu 2018 en með nýjum samningi fær setrið afnot af einni hæð til viðbótar. Hún verður m.a. nýtt til að efla verklega kennslu í náminu enn frekar og bæta nemendaaðstöðu.

„Það er mikið ánægjuefni hversu jákvæð þróunin hefur verið í tæknifræðináminu eftir að það var  flutti í Tæknifræðisetrið í Hafnarfirði 2018. Tæknifræði er mikilvæg hagnýt grein fyrir íslenskt samfélag. Við í Háskóla Íslands höfum unnið að því að efla hana á undanförnum árum og það er nú búið mjög vel að tæknifræðinni við HÍ. Ég vil þakka Karli Sölva Guðmundssyni prófessor fyrir hans forystuhlutverk í því verki. Einnig þakka ég Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar, fyrir farsælt samstarf,” segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands í tilkynningu.

„Það hefur verið mikil áskorun að flytja og endurvekja nám í tæknifræði á sama tíma og heimsfaraldur geisar. Fá tækifæri hafa boðist til að kynna námið fyrir áhugasömum og verðandi nemendum. En þrátt fyrir það þá hefur tæknifræðinámið vaxið jafnt og þétt frá 2018. Við getum aðeins horft björtum augum fram á veginn með stórbætta nemenda- og kennsluaðstöðu á Menntasetrinu við Lækinn. Með hækkandi sól og lækkandi smittölum hlakkar okkur til að kynna námið og frábæra námsaðstöðu fyrir verðandi tæknifræðingum. Við erum afar þakklát öllum þeim sem komið hafa að uppbyggingu Tæknifræðiseturs Háskóla Íslands,“ segir Karl Sölvi Guðmundsson, prófessors við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður Tæknifræðisetursins.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2