fbpx
Miðvikudagur, apríl 24, 2024
HeimFréttirSkólamál109 af 371 barni fætt 2015 komið með leikskólavist

109 af 371 barni fætt 2015 komið með leikskólavist

Börn fædd í apríl og maí 2015 hefja leiskólagöngu í febrúar 2017

Haustinnritun barna í leikskóla fór fram nú í ágúst og stendur aðlögun yfir. 109 börn fædd í upphafi árs 2015 eru komin með pláss á leikskólum í Hafnarfirði. „Aðgerðir sem miða að lækkun innritunaraldurs eru farnar að skila árangri og eru ný börn haustið 2016 yngri en áður,“ segir Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar í tilkynningu.

Frá því að opnað var fyrir innritun leikskólabarna í febrúar 2016 þá á innritun sér stað tvisvar sinnum á ári í Hafnarfirði, annars vegar í ágúst og hins vegar í febrúar. Innritun að hausti er umfangsmikil en þá hefja elstu deildir leikskólanna nám í grunnskóla og stórir hópar barna hefja leikskólagöngu sína.

109 börn af 371 börnum sem fædd eru á árinu 2015 eru komin með pláss á leikskóla í Hafnarfirði, öll þessi börn eru fædd í upphafi árs 2015. Fyrstu dagarnir og vikurnar innan leikskólanna fara í aðlögun barnanna að breyttum aðstæðum og umhverfi og því að kynnast starfsfólki og nýjum vinum. Samhliða hefst skipulagt starf innan yngstu deila skólanna sem eflist og styrkist með tímanum.

Börn fædd í apríl og maí 2015 hefja leiskólagöngu í febrúar 2017

Í febrúar 2017 munu börn fædd í apríl og maí 2015 hefja sína leikskólagöngu eftir því sem pláss leyfa. Haustið 2017 komast svo öll önnur börn fædd árið 2015 inn á leikskóla. Þessar aðgerðir eru í takt við ákvörðun fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 1. júní 2015 sem samþykkt var hjá bæjarráði, í umboði bæjarstjórnar, þann 13. ágúst sama ár. Þar kemur fram að stefnt sé að því að börn allt að 18 mánaða aldri innritist í leikskóla.

Í einhverjum tilfellum eru börnin þó eldri þar sem innritun á sér stað einungis tvisvar sinnum yfir árið. Það er gert þannig að halda megi úti markvissu og góðu skólastarfi, þar sem börnin eru í fyrirrúmi, í stað þess að fasi aðlögunar og innritunar sé að eiga sér stað oftar yfir árið með tilheyrandi áhrifum á skipulagt skólastarf.

Til stendur að lækka innritunaraldur um einn mánuð ár hvert við innritun í ágúst. „Hér er verið að stíga mikilvæg skref í átt að enn betri þjónustu við barnafjölskyldur í Hafnarfirði,“ segir í tilkynningunni.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2