Safna undirskriftum til verndar Víðistaðatúninu

Nær væri að bæta almennt aðgengi að Víðistaðatúni og ekki verður séð að nauðsyn knýi á um að þétta byggð á þessu svæði að sögn aðstandenda

Hér eiga að koma 10 2ja hæða hús

Hrundið hefur verið af stað undirskriftarlista til að mótmæla byggingaráformum við Víðistaðatún ofan við skátaheimilið Hraunbyrgi við Hjallabraut.

Gerð hefur verið aðalskiplulagsbreyting og deiliskipulagsbreyting sem er í kynningarferli sem gerir ráð fyrir byggð á svæði sem hingað til hefur verið hluti af hverfisvernduðu hrauni. Skv. tillögunum er aðkoma bíla í gegnum bílastæðið við skátaheimilið, beint fyrir framan aðalinngang hússins og við gangbraut yfir Hjallabraut.

„Við, íbúar hverfisins auk Skátafélagsins Hraunbúar mótmælum því að áform þessi nái fram að ganga. Víðistaðatún er einstök perla í Hafnarfirði og er túnið mikið nýtt til útivistar af ýmsu tagi, ekki eingöngu af íbúum svæðisins, Skátafélaginu og leikskólabörnum heldur Hafnfirðingum öllum,“ segir í bréfi með undirskriftarlistanum.

Segja aðstandendur söfnunarinnar að öll ásýnd svæðisins muni breytast mjög við að í stað þess að svæðið sé innrammað trjágróðri sem ýtir undir þá upplifun að um sé að ræða vin í bænum, muni það verða innrammað af tveggja hæða húsum.

Segja þeir nær væri að bæta almennt aðgengi að Víðistaðatúni og að auka enn á gildi þess með landsmótun og uppsetningu áhalda eins og Skólahreystibraut og uppsetningu varanlegs sviðs til viðburðahalds. Segja þeir að verði séð að nauðsyn knýi á um að þétta byggð á þessu svæði. Nóg sé til af öðru byggingarlandi í bæjarlandinu.

„Við trúum því að með samtakamætti sé hægt að ná eyrum stjórnenda bæjarins og koma í veg fyrir þetta skipulagsslys,“ segir í bréfinu.

Hægt er að skrá sig á listann hér

Deiliskipulag við Hjallabraut samþykkt – Stærri hús og áfram ekið í gegnum bílastæði við Skátaheimilið

 

 

 

Ummæli

Ummæli