fbpx
Mánudagur, mars 4, 2024
HeimFréttirHeimild veitt í skipulagi til að fjarlægja eða rífa hús við Reykjavíkurveg

Heimild veitt í skipulagi til að fjarlægja eða rífa hús við Reykjavíkurveg

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 13. október sl. tillögu að deiliskipulagi ásamt greinargerð fyrir vesturbæ Hafnarfjarðar.

Deiliskipulagstillagan hefur áhrif á mörk aðliggjandi deiliskipulaga og verða þau leiðrétt samhliða. Þar sem tillagan gengur yfir eldri deiliskipulög, verða þau felld úr gildi.

Auk þess er lögð fram tillaga að verndarsvæði í byggð ásamt húsakönnun.

Var deiliskipulagið samþykkt ásamt fylgiskjölum og að þau verði auglýst í samræmi við skipulagslög og er umsagnarfresturinn til 30. nóvember nk.

Samþykkti bæjarstjórn jafnframt að vísa tillögu að verndarsvæði í byggð til menntamálaráðuneytisins til meðferðar í samræmi við lög um verndarsvæði í byggð.

Fjölmörg fylgiskjöl fylgdu með málinu en ítarlegast þeirra er 62 síðna greinargerð og skipulagsskilmálar sem lesa má hér.

Yfirlit yfir skipulagssvæðið. Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.

Miklar breytingar geta orðið við Reykjavíkurveg

Vegna væntanlegrar Borgarlínu hefur verið sett inn í skilmálatöflu skipulagsins heimild til að rífa hús vegna breytinga á Reykjavíkurvegi og í þeim tilfellum sem hús eru friðuð, að þau verði flutt annað. Á þetta við ca. 17 hús sem standa við Reykjavíkurveginn.

Gríðarlegt magn af skjölum er lagt fram með þessari deiliskipulagsbreytingu en hvergi er að sjá í yfirliti að fyrirhugað sé að fjarlægja hús við Reykjavíkurveginn, Vesturbæjarmegin.

Greinilega vantar að málið sé reifað svo íbúar átti sig betur á um hvað deiliskipulagsbreytingin snýst um.

Ekki í anda laga um verndarsvæði í byggð

Jóhannes Þór Skúlason

Jóhannes Þór Skúlason, íbúi að Nönnustíg 3 hefur sent athugasemdir til Hafnarfjarðarbæjar þar sem hann bendir á að sú áætlan bæjaryfirvalda að undanskilja húsaröðina næst Reykjavíkurvegi frá skilgreindu verndarsvæði Vesturbæjar og gera ráð fyrir því í deiliskipulagi að fjarlægja megi húsin til að breikka Reykjavíkurveg fyrir umferð strætisvagna Borgarlínu, samræmist á engan hátt markmiðum laga um verndarsvæði í byggð. Hún gangi því þvert á markmið verndarsvæðisins um varðveislugildi byggðar í Vesturbæ. Í Facebookfærslu gengur hann lengra og segir: „Það er algerlega galið að þetta skuli sett upp með þessum hætti, að undanskilja þessa húsaröð verndarsvæði í byggð í vesturbænum, þegar húsakönnunin sýnir augljóslega að þessi hús eru mikilvægur hluti heildarmyndar svæðisins.“

Hann segir það óumdeilanlegt að fjöldi þeirra húsa við Reykjavíkurveg sem deiliskipulagsbreytingin heimili að fjarlægja séu skýr og augljós hluti af þeirri heild byggðakjarnans í Vesturbæ sem falli undir verndarsvæðið, og falli fyllilega að svipmóti hennar, listrænu og menningarsögulegu gildi.

Segir hann eitt grunnmarkmið laga um verndarsvæði í byggð sé einmitt að koma í veg fyrir spjöll af þessu tagi á byggðakjörnum sem hafi menningarsögulegt, listrænt gildi og/eða gefi byggðinni skýrt svipmót. „Þetta þekki ég afar vel þar sem ég átti beinan þátt í undirbúningi og setningu laga nr. 87/2015 um verndarsvæði í byggð,“ segir Jóhannes Þór í bréfi sínu.

„Ég skora á bæjarfulltrúa að láta sér þá sögu nú að kenningu verða og horfa í þetta sinn fremur til þess gildis og tækifæra sem felast í því að vernda stærstu samfelldu bárujárnsbyggð landsins fyrir komandi kynslóðir að fullu en til þess að fremja á henni óafturkræf og vanhugsuð spjöll í nafni tíðari strætóferða,” segir Jóhannes Þór, íbúi við Nönnustíg jafnframt.

Húsin sem hér hafa verið lituð gul við Reykjavíkurveg verður heimilt að rífa eða flytja vegna breytinga á Reykjavíkurvegi.

Nýir byggingarreitir og byggingarreitir stækkaðir

Í deilskipulagstillögunni sem nú er til umsagnar er gert ráð fyrir nokkrum nýjum lóðum og víða eru byggingarreitir stækkaðir, m.a. við Krosseyrarveg, Hellisgötu, Norðurbraut, Tunguvegi og Kirkjuvegi auk þess sem byggingarreitur er stækkaður við byggðasafnið.

Húsakönnun og verndarsvæði í byggð

Samhliða deiliskipulagsgerðinni hefur verið unnin húsakönnun á svæðinu og tillaga að verndarsvæði í byggð.

Vesturbær Hafnarfjarðar hefur að geyma mörg elstu hús bæjarins sem jafnframt tengjast langri og merkri sögu hans. Með tillögunni að verndarsvæði í byggð er leitast við að móta stefnu sem tryggir heildarmynd innan svæðisins sem afmarkast af Hraunbrún, Garðavegi, Norðurbraut, Nönnustíg, Reykjavíkurvegi og Vesturgötu.

Athugasemdarfrestur til 30. nóvember

Tillögurnar verða til sýnis á umhverfis- og skipulagssviði að Norðurhellu 2 og í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar Strandgötu 6, til 30. nóvember 2021. Öll gögnin má finna hér.

Þeim sem telja sig hagsmuna eiga að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við breytinguna á netfangið: skipulag@hafnarfjordur.is, skriflega í þjónustuver að Strandgötu 6 eða á B/t umhverfis- og skipulagssvið, Norðurhellu 2, 221 Hafnarfirði, eigi síðar en 30. nóvember nk.

Þann dag rennur líka út frestur til að gera athugasemdir við deiliskipulagstillögur vegna Áshamars, reit 1A, 2A, 8A og 9A. Einnig við aðalskipulagstillögu, Smyrlahraun 41a og miðbær.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2