fbpx
Miðvikudagur, janúar 19, 2022

Garðbæingar vilja friða Urriðakotshraun en Hafnfirðingar hafa áhyggjur af Ofanbyggðavegi

Garðabær og Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa sem er landeigandi hafa í samstarfi við Umhverfisstofnun kynnt áform um friðlýsingu Urriðakotshrauns.

Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann snemma á nútíma fyrir um 8100 árum og segir í umsögn Hafnarfjarðarbæjar að það sé í sjálfu sér ánægjulegt þegar sveitarfélög hafa áform um friðun náttúruminja og heillegar hraunmyndanir innan sinna marka, en það þurfi að horfa á málið í stærra samhengi.

Er þá átt við að í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sé gert ráð fyrir Ofanbyggðavegi, að vísu ekki á korti, en í texta þar sem tveir vegir eru sagðir flokkast sem meginstofnvegir, Sundabraut og Ofanbyggðavegur. Í svæðisskipulaginu kemur fram að lega þeirra skuli ákveðin í aðalskipulagi sveitarfélaga – í samstarfi við Vegagerðina.

Tillaga að friðlýsingu er skástrikuð á loftmyndinni.

Er gert ráð fyrir þessum Ofanbyggðavegi í aðalskipulagi Hafnarfjarðar og segir í umsögn Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem Berglind Guðmundsdóttir landslagsarkitekt ritar, að við fyrirhugaða friðlýsingu þurfi að huga að þessum meginstofnleiðum og hvernig friðlýsingin muni rúmast innan þess ramma sem fram kemur í svæðisskipulaginu. Gert hefur verið ráð fyrir að Ofanbyggðavegur sem í framtíðinni tengdist Reykjanesbraut við landamerkin við Voga og suður fyrir iðnaðarsvæðið í Hellnahrauni, færi í göngum skammt sunnan við nýja Ásvallabraut og lægi svo í átt til Reykjavíkur þar sem núverandi Elliðavatnsvegur/Flóttamannavegur liggur. Lægi hann því rétt norðan við verndarsvæðið við Maríuhellana.

Sjá má legu Ofanbyggðavegar skv. aðalskipulagi Hafnarfjarðar

Óskar Hafnarfjarðarkaupstaður eftir frekara samráði og nánari upplýsingum um þessa friðlýsingu þar sem um stórt hagsmunamál sé að ræða.

Einnig áskilur bærinn sér rétt til að koma með nánari athugasemdir og ábendingar við frekari vinnslu þessa máls.

Hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar

Urriðakostshraun er svokallað klumpahraun og er jaðar þess uppbelgdur og úfinn. Í hrauninu eru sveigðir hryggir á yfirborði og úfnir hraukar við jaðrana. Nokkuð er um hraunhella og kallast þeir Selgjárhellar og Maríuhellar. Heitir hraunið Smyrlabúðarhraun við Selgjá og frá Selgjá að Maríuhellum heitir hraunið Urriðakotshraun.

Horft í austur eftir hrauninu, Vífilsstðahlíðin á vinstri hönd.

Hraunið nýtur sérstakrar verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.

Býr svæðið yfir fjölbreyttum náttúruminjum og í því felast miklir möguleikar til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu. Innan svæðisins liggja göngu- og reiðstígar.

Friðlýsingin er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Ýmsar fornminjar eru á svæðinu m.a. þessi fjárhúsatóft frá Urriðakoti.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 4. desember 2020. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar fréttir

Fylgjstu með

3,319AðdáendurLíka við
53FylgjendurFylgja
0áskrifendurGerast áskrifandi
- Auglýsing -spot_img

Nýjustu greinar