fbpx
Þriðjudagur, maí 21, 2024
HeimFréttirFengu 8.000 m² byggingarmagn aukreitis þegar skipulagi var breytt vegna nýs húss...

Fengu 8.000 m² byggingarmagn aukreitis þegar skipulagi var breytt vegna nýs húss fyrir Hafró

Hart deilt um deiliskipulag á hafnarsvæðinu

Bæjarstjórn samþykkti í gær á fundi sínum breytingu á deiliskipulagi Suðurhafnar. Var það gert að beiðni Eignarhaldsfélagsins Fornubúðar 5 sem hafði gert samkomulag við ríkið um að útvega Hafrannsóknarstofnun allt að 5.200 m² húsnæði undir starfsemi stofnunarinnar.

Gert er ráð fyrir að Hafrannsóknarstofnun verði í 6.000 m² nýbyggingu austan við gömlu SÍF skemmuna að Fornubúðum 5. Nýbyggingin verður 5 hæða há og eru kvaðir um að útlitið verði brotið upp eins og þarna væri samsett röð minni bygginga, að hámarki 15 m hvert. Þakform er þó frjálst en uppbrot þurfa einnig að vera í þaki og í þakkanti.

Skipulags- og byggingarráð fagnaði því í bókun að starfsemi Hafrannsóknarstofnun muni flytja starfsemi sína í Hafnarfjörð en ítrekaði að mikilvægt væri að vel tækist til við hönnun fyrirhugaðrar byggingar sem væri á mjög áberandi stað á hafnarsvæðinu og blasi við miðbænum.

Skýringarmynd þar sem horft er í átt að Langeyri.

8.000 m² byggingarreitur aukreitis

Skv. deiliskipulagstillögunni sem Batteríið arkitektar vann er gert ráð fyrir 8.000 m² til viðbótar og að byggingin nái einnig norður fyrir SÍF-húsið og fullbyggð verður lóðin með 1,32 nýtingarhlutfall. Var þetta gagnrýnt af fulltrúum minnihlutans og sagt að þarna væri verið að breyta lóðarnýtingu með róttækum hætti á sama tíma og verið væri að vinna framtíðarskipulag fyrir hafnarsvæðið.

Hótelíbúðir frekar en íbúðabyggð

Gunnar Axel Axelsson (S) spurði formann skipulags- og byggingarráðs hvort nokkur hætta væri á því að þarna væri verið að taka fyrsta skrefið í að heimila uppbyggingu íbúðarbyggðar.

Ólafur Ingi Tómasson (D) formaður skipulags- og byggingarráðs sagði að til að heimila íbúðir þyrfti að breyta aðalskipulagi til þess. Það væri langt ferli og hefði ekki komið til tals. Sagði hann að við hönnun á öllu svæðinu væri ekki útilokað að einhvers staðar yrðu íbúðir. Sagði hann ekki gert ráð fyrir íbúðum á þessum byggingarreit. Benti hann hins vegar á að ekkert stæði í vegi fyrir því að byggja hótelíbúðir á hafnarsvæðinu.

Sagði Gunnar Axel óeðlilegt að þarna væri verið að færa lóðarhöfum óeðlilegar heimildir til byggingarmagns og jafnvel til byggingar hótels án þess að það komi nokkurs staðar fram. Fullyrti hann að þarna væri verið að taka ákvörðun sem hækkaði verðmæti þessarar lóðar gríðarlega án þess að lóðarhafi greiddi neitt fyrir þá verðmætaaukningu. Sagði hann óeðlilegt að tengja þessa viðbót á byggingarmagni við komu Hafrannsóknarstofnunar í bæinn.

Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir (V) sagði óeðlilegt að taka þessa lóð út fyrir sviga á sama tíma og vinnuhópur væri að störfum að skipulagi fyrir svæðið.  Hafði hún áhyggjur af því að þetta væri aðeins upphafið að því að Hafnarfjörður tapaði höfninni sinni.

Benti Ólafur Ingi Tómasson á að 80 manns starfaði nú í húsinu og að ekki kæmi eitt kíló inn í húsið upp úr skipum í Hafnarfjarðarhöfn, allt kæmi með trukkum. Dró hann svo í land og sagði að 99,9% af vörum kæmi ekki í gegnum Hafnarfjarðarhöfn. Sagði hann að fæst hús á hafnarsvæðinu, frystigeymslan, Saltkaup og olían fengju vörur sínar um Hafnarfjarðarhöfn.

Litaði hlutinn er húsnæði Hafrannsóknarstofnunar.

Minnihlutinn ekki samþykkur

Var tillagan svo samþykkt með 7 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gegn atkvæði Vinstri grænna en þrír fulltrúar Samfylkingar sátu hjá.

Myndir úr skipulagsgögnum gerðar af Batteríinu arkitektum.

 

 

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2