­­Breyta á skipulagi svo hægt verði að hafa íbúðir á jarðhæð á Dvergsreitnum

Heimilt verður að hafa íbúðir á Linnetsstíg ef núverandi tillögur verða samþykktar

Dvergslóðin áður en hús Dvergs var rifið.

Um miðjan september felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsaklasa með 23 íbúðum og einu atvinnurými á lóðinni Lækjargötu 2, þar sem Dvergshúsið svokallaða stóð.

Ástæðan var að ekki er heimilt að hafa íbúðir á jarðhæð skv. miðbæjarskipulaginu og í almennum skilmálum aðalskipulags segir að á miðsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi. Lóðarhafar breyttu þegar teikningum og gerðu ráð fyrir atvinnustarfsemi á jarðhæð og voru þær teikningar samþykktar snarlega svo lítið hlé varð á byggingu húsanna.

Lýsing vegna breytinga á greinargerð aðalskipulags

Nú hefur verið samþykkt lýsing vegna breytinga á greinargerð miðbæjarsvæðis M1 aðalskipulags sem gerir ráð fyrir að ákvæði um atvinnustarfsemi á jarðhæð eigi aðeins við um Strandgötu og Fjarðargötu í skipulagi miðbæjarins.

Lýsing fyrirhugaðrar aðalskipulagsbreytingar er sett fram og kynnt í upphafi verks í samræmi við skipulagslög til þess að almenningur, umsagnaraðilar og hagsmunaaðilar fái upplýsingar um fyrirhugaða skipulagsvinnu og geti sett fram sjónarmið, athugasemdir og ábendingar sem að gagni gætu komið við gerð skipulagsins.

Í tillögunum segir að byggð við Merkurgötu, Linnetsstíg, Gunnarssund, Mjósund, Austurgötu, Brekkugötu og Lækjargötu sem fellur innan miðbæjarsvæðisins M1 haldi sínum einkennum og geti áfram staðið óbreytt einungis sem íbúðarhúsnæði.

Ekkert er fjallað um Linnetsstíg á milli Strandgötu og Fjarðargötu þar sem eingöngu er atvinnustarfsemi í dag né heldur Linnetsstíg milli Strandgötu og Austurgötu.

Er það vilji bæjarstjórnar að heimilt verði að breyta starfsemi á jarðhæðum þessara húsa úr atvinnustarfsemi í íbúðarhús?

Það vekur athygli að óskýrum ákvæðum í greinargerð með aðalskipulagi frá 2014 sé kennt um. Í gildandi aðalskipulagi stendur m.a.: „Stefnt er að því að Strandgata og Austurgata verði hellulagðar ásamt Gunnarssundi, Mjósundi og Linnetsstíg sem verði hliðarverslunargötur.“ Ekki er fjallað um þennan texta í nýju breytingunum og ekki séð hvernig hann getur staðið áfram óbreyttur ef nýju tillögurnar ná fram að ganga.

Í miðbæjarskipulaginu er íbúðabyggðin við Austurgötu sem fellur undir miðbæjarskipulagið hverfisverndað og því erfitt að sjá að ákvæði um atvinnustarfsemi eigi við um þau hús.

Nú þarf að auglýsa lýsinguna sem samþykkt var í bæjarstjórn og gefa bæjarbúum tækifæri til að gefa umsögn um breytingarnar.

Ummæli

Ummæli