fbpx
Miðvikudagur, júní 12, 2024
HeimFréttir71% byggingarmagns á Hrauni vestur verði íbúðir og hótel

71% byggingarmagns á Hrauni vestur verði íbúðir og hótel

Metnaðarfullar áætlanir með Hraun vestur en getur tekið 25 ár

Það eru orðin 8 ár síðan samkeppni var haldin um skipulag Hrauns vestur, sem er svæði sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Flatahrauni og Fjarðarhrauni.

Krads arkitektar og Teikna arkitektar urðu hlutskarpastir og unnur stofurnar síðan rammaskipulag sem samþykkt var af skipulags- og byggingarráði 2019 en fyrir handvömm var það aldrei formlega samþykkt í bæjarstjórn. Þegar það uppgötvaðist vildi bæjarstjórn einhverra hluta vegna ekki samþykkja rammaskipulagið og fyrsta skipulagið sem unnið var á svæðinu, svæði við Hjallahraun, var í litlu samræmi við rammaskipulagið, með meira byggingarmagni og hærra hlutfalli íbúða en rammaskipulagið sagði til um.

Nú er unnið að þróunaráætlun fyrir Hraun Vestur sem er heildarsýn fyrir framtíðaruppbyggingu á svæðinu.

Áhersla er lögð á grænan ás í gegnum svæðið.

Á kynningarfundi um þróunaráætlunina í Bæjarbíó í kvöld, fimmtudag, kynntu fulltrúar arkitektastofanna, Kristján Örn Kjartansson frá Krads arkitektum og Jóann Einar Jónsson frá Teikna arkitektum stöðu verksins og þær hugmyndir sem liggja að baki vinnunni.

Í þróunaráætluninni eru sett fram leiðarljós og stýrilínur fyrir framtíðaruppbyggingu svæðisins alls og er hún mikilvægt verkfæri inn í frekari skipulagsvinnu þó hún sé ekki bindandi skipulagsáætlun.

Uppbygging á svæðinu mun gerast í áföngum og taka tíma. Skipulagsrammi þróunaráætlunarinnar er því sveigjanlegur og tekur mið af aðstæðum á hverjum reit/svæði fyrir sig. Framtíðarsýnin er í meginatriðum að svæðið fái að þróast og byggjast upp á grunni núverandi byggðar, forsendum þróunaráætlunarinnar og að frumkvæði einstakra lóðarhafa og hugmynda þeirra og þannig mun svæðið breytast með tímanum í fjölbreytta og góða byggð.

Kristján Örn sagðist vilja halda áfram þeirri starfsemi sem er á svæðinu en fram kom að eflaust þyrfti einhver starfsemi að víkja á meðan önnur gæti komið í staðinn.

Fram kom á fundinum að þessi vinna gæti tekið langan tíma og gæti gerst í áföngum.

Þrefalt byggingarmagn

Hér má sjá áætlun um þreföldun byggingarmagns á svæðinu.

Í dag er á svæðinu 131.574 m² og 83% af því er skilgreint sem iðnaður, skrifstofur, verslun og þjónusta og veitingarekstur eða  110.175 m². 17% er í dag íbúðir, 112 talsins og gisting/hótel á um 21.400 m².

Markmiðið er að byggingarmagnið aukist gífurlega og verði í allt 382.500 m² og 29% af því verði iðnaður, skrifstofur, verslun og þjónusta og veitingarekstur, jafn mikið og áður, 110.175 m². Hins vegar verði 71% í íbúðum sem verða 2500-3000 og gistingu/hótelum.

Ýmsar spurningar og ábendingar

Þó nokkuð var um fyrirspurnir og m.a. spurði einn eigandi húsnæðis á miðju svæðinu af hverju ekki mætti byggja hátt í miðjunni og hafa lægra út til kantanna. Í svörum kom fram að eðlilegra væri að hafa mikið byggingarmagn t.d. við Reykjavíkurveg þar sem Borgarlínan kemur og sagði afstöðu til sólar einnig skipta máli.

Kristján Örn Kjartansson, Jóhann Einar Jónsson og Lilja Grétarsdóttir skipulagsstjóri hjá Hafnarfjarðarbæ.

Spurt var um skólahúsnæði og kom fram að tækifæri væru til bygginga á skólalóðum í nágrenninu en þegar íbúðum fjölgaði þyrfti að huga að skólahúsnæði á svæðinu og nefnt að það gæti jafnvel verið saman með annarri starfsemi.

Fram kom í athugasemdum að 70% eigenda á hverju skipulagssvæði þyrftu að samþykkja að breyta núverandi skipulag svo hægt væri að fara í uppbyggingu.

Einnig kom fram hvatning um að gera strax deiliskipulag fyrir gatnakerfið og tóku tvímenningarnir vel í þá hugmynd. Þá var bent á mikilvægi þess að tryggja strax gönguleiðir barna t.d. að skólum. Einnig kom fram að í ákveðnum tilfellum í Reykjavík væri deiliskipulag ekki samþykkt fyrr en byggingateikningar lægju fyrir til að tryggja að markmið næðust.

Breyta þarf aðalskipulagi

Samhliða hefur verið unnið að breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 og er þróunaráætlunin samofin þeirri vinnu. Í breytingu á aðalskipulagi er fyrirhugað að breyta landnotkun á Hraun vestur svæðinu úr athafnasvæði, verslunar- og þjónustusvæði og íbúðabyggð í miðsvæði.

Þannig verður mögulegri framtíðaruppbyggingu á svæðinu breytt í blandaða byggð sem býður m.a. upp á fjölbreytta nýtingu svo sem búsetu og atvinnustarfsemi.

Tillaga að lýsingu og breytingu aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2015 verður auglýst síðar en reiknað er með að hægt verði að samþykkja nýtt skipulag í janúar/febrúar 2025.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2