Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögur sóttvarnalæknis um hertar samkomutakmarkanir á höfuðborgarsvæðinu og taka þær gildi á morgun, 7. október.
Samkomutakmarkanir sem kynntar voru í gær gilda óbreyttar annars staðar á landinu. Gildistími þessara takmarkana er til og með 19. október.
Með höfuðborgarsvæðinu er átt við Reykjavík, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp, Hafnarfjarðarkaupstað, Garðabæ og Kópavog.
Hertar takmarkanir fela í sér eftirfarandi:
- Nálægðarmörk 2 metrar: Nálægðarmörk verða 2 metrar. Það á einnig við í öllum skólum, að undanskildum börnum fæddum 2005 og síðar.
- Þjónusta sem krefst snertingar eða mikillar nándar: Starfsemi og þjónusta sem krefst snertingar eða ef hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar er óheimil. Þetta á við svo sem um hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur, húðflúrunarstofur og aðra sambærilega starfsemi. Framangreint á þó ekki við um starfsemi heilbrigðisstarfsfólks við veitingu heilbrigðisþjónustu en í þeim tilvikum er skylt að nota andlitsgrímur.
- Verslanir: Viðskiptavinum verslana verður skylt að bera andlitsgrímur ef ekki er hægt að tryggja a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
- Sund- og baðstaðir: Sund- og baðstöðum verður lokað.
- Íþróttir og líkamsrækt innandyra óheimil: Líkamsrækt, íþróttastarf og sambærileg starfsemi sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu á milli fólks eða mikilli nálægð, eða þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér er óheimil innandyra.
- Íþróttir utandyra: Íþróttir utandyra eru heimilar en áhorfendur á íþróttaviðburðum utandyra skulu ekki vera fleiri en 20 í hverju rými. Áhorfendur skulu bera grímu og sitja í merktum sætum.
- Sviðslistir: Á viðburðum svo sem í leikhúsum, kvikmyndahúsum, á tónleikum o.þ.h. mega gestir ekki vera fleiri en 20 að hámarki. Gestir skulu allir bera grímu og sitja í merktum sætum.
- Veitingastaðir: Þeir veitingastaðir sem mega hafa opið (krár og skemmtistaðir skulu vera lokaðir) mega ekki hafa opið lengur en til kl. 21.00.
Börn fædd 2005 og síðar:
- Skólasund: Þrátt fyrir lokun sundstaða er heimilt að halda úti skólasundi fyrir börn fædd 2005 og síðar.
- Íþrótta- og æskulýðsstarfsemi og tómstundir barna sem eru fædd 2005 og síðar er heimil.
- Keppnisviðburðir: Keppnisviðburðir barna sem fædd eru 2005 og síðar þar sem hætta er á blöndun hópa umfram hefðbundnar æfingar eru óheimilir.
- Nálægðar- og fjöldamörk: Líkt og áður gilda nálægðar- og fjöldamörk ekki um börn fædd 2005 og síðar.