fbpx
Mánudagur, maí 13, 2024
HeimFréttirPóstboxum verður fjölgað úr átta í 35

Póstboxum verður fjölgað úr átta í 35

Liður í aðgerðaráætlun til að stórauka þjónustu og bæta þjónustuupplifun

Póstboxum mun fjölga mikið á næsta ári en Pósturinn hyggst bæta við um 35 Póstboxum víðsvegar um landið. Meirihluti hluti nýju boxanna verður settur upp á höfuðborgarsvæðinu en þau verða einnig sett upp á völdum stöðum á landsbyggðinni. Nánari staðsetningar á Póstboxunum liggja ekki fyrir en verið er að greina hentugar staðsetningar útfrá magni og eftirspurn.

Póstboxin eru sífellt að verða vinsælli afhendingarleið og fjöldi notenda eykst með hverjum degi. Þau eru nú átta talsins og eru staðsett víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Helstu kostir Póstboxa eru að þau eru aðgengileg utan hefðbundins opnunartíma og það tekur aðeins örfáar sekúndur að sækja pakka í þau. Þá eru öll samskipti fyrir þá sem kjósa að nota Póstbox rafræn. Þegar er komin góð reynsla á þessa þjónustu og ánægðustu viðskiptavinir Póstsins eru þeir sem nýta sér hana samkvæmt könnunum.

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts

„Umbreyting Íslandspósts hvílir á tveimur jafn mikilvægum stoðum, annars vegar þarf að breyta tapi í hagnað og ná stjórn á rekstrinum, en við teljum okkur vera komin með tök á því verkefni með hagræðingu í launakostnaði, almennu kostnaðaraðhaldi og öðrum aðgerðum en við búumst við að árangur fari að sjást á næstu mánuðum. Hins vegar er verkefnið að bæta og í raun stórauka þjónustu við viðskiptavini okkar og gera Póstinn að þjónustumiðuðu fyrirtæki. Við höfum ekki haldið í við kröfur nútíma viðskiptavina, við vitum að á undanförnum árum hefur þjónustuupplifun ákveðinna hópa viðskiptavina verið óásættanleg og þá sérstaklega þegar kemur að netverslun. Við vinnum nú  hörðum höndum til að bæta þessa upplifun og erum  að endurskoða allar okkar þjónustuleiðir til að mæta betur þörfum viðskiptavina og er sú vinna unnin í nánu samstarfi við stjórn fyrirtækisins.

Það er rétt að halda því til haga að þegar við tölum um þjónustu þá er ekki átt við viðmót eða vinnubrögð starfsfólks okkar í framlínu, það góða fólk gerir sitt besta á hverjum degi og oft við erfiðar aðstæður. Heldur er átt við að ferlar og þjónustuleiðir Póstsins hafa ekki endurspeglað hraða þróun á markaði en kröfur dagsins í dag snúa að aukinni sjálfsafgreiðslu og ýmiskonar stafrænum lausnum sem gefa viðskiptavinum okkar kost á að velja hvernig þeir nálgast þjónustu okkar, skilja kostnaðinn við hana og í raun stýra öllu ferlinu betur en verið hefur.     

Stórt net Póstboxa er gríðarlega mikilvægur burðarbiti í þessari þjónustumiðuðu framtíðarsýn okkar, en með þeim getur viðskiptavinurinn ráðið hvar og hvenær sólahrings hann nálgast sínar sendingar og í framtíðinni aðra þjónustu Íslandspósts. Það er því ekki nauðsynlegt að taka mið af opnunartíma pósthúsa eða tímasetningu á heimkeyrslu þó að þessar þjónustuleiðir verði vissulega áfram í boði.  

Viðskiptavinir okkar hafa kallað eftir fleiri Póstboxum og ekki síst á landsbyggðinni, en við viljum nú svara þessu kalli og setja þau upp á fleiri stöðum á landinu og það mun gerast á næsta ári.

Setja upp Pakkastöðvar með samstarfsaðilum

Önnur nýbreytni er að við munum kalla eftir samstarfi við helstu netverslanir og aðila sem eru í dreifingu á pökkum og munum bjóða þeim beint aðgengi að Póstboxunum okkar svo að þeirra viðskiptavinir geti einnig upplifað þessa þjónustuleið á fleiri stöðum út um allt land. Við erum einnig í viðræðum við ýmsa aðila um að setja upp svokallaðar Pakkastöðvar (e. Parcel Points) en þannig verður hægt að afhenda pakka í ýmsum verslunum og á öðrum slíkum þjónustustöðum sem verða í samstarfi við okkur.

Markmiðið okkar er fyrst og fremst að bæta upplifun viðskiptavina okkar og að veita þeim framúrskarandi þjónustu,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2