Nú liggur fyrir fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar. Af orðum meirihluta bæjarstjórnar, fulltrúum Sjálfstæðismanna og Bjartrar framtíðar við kynningu fjárhagsáætlunarinnar má skilja að loks sé búið að snúa við rekstri bæjarins. Það er vel og því ber að fagna. Að margra mati er þó ekki sanngjarnt af meirihlutanum að eigna sér einum þá góðu þróun því á síðasta kjörtímabili átti sér stað mikil vinna af hálfu fyrri meirihluta Vinstri grænna og Samfylkingar við endurfjármögnun vegna stöðu bæjarins eftir hrun og er árangur að sjást af þeirri vinnu núna. Í allri gleðinni yfir þessu ber þó skugga á. Það skýrist af forgangsröðun núverandi meirihluta þegar kemur að því að útdeila fjármunum bæjarfélagsins.
Afar slæmt ástand er á húsnæðismarkaði sem bitnar hefur verst á ungu fólki og fólki sem hefur minni möguleika en aðrir til þess að afla tekna. Í Hafnarfirði eru 161 umsókn á biðlista fyrir félagslegar íbúðir, það eru skv. uppl. fjölskylduþjónustu 256 einstaklingar, 165 fullorðnir og 91 barn. Þar af eru 70 öryrkjar eða sjúklingar. Allir umsækjendurnir eru metnir í brýnni þörf fyrir húsnæði.
Í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að veita eigi 200 milljónum í félagslegar íbúðir, en er verið að gera nóg? Það mun alls ekki leysa vanda allra á biðlistanum.
Það stingur í augun að á meðan veita á 200 milljónum í félagslegar íbúðir fyrir fólk í brýnni þörf fyrir húsnæði veitir meirihlutinn tæpum 350 milljónum í nýbyggingu íþróttamannvirkja og gervigrasvöll.
Til þess að fyrirbyggja misskilning þá tel ég íþróttir mjög mikilvægar og vil veg þeirra sem mestan, en þegar við forgangsröðum þá ber okkur að mínu mati að sinna fyrst lögbundnum skyldum en sveitarfélög bera ábyrgð á og hafa lögbundna skyldu til þess að leysa húsnæðisþörf þeirra íbúa sem þurfa aðstoð við húsnæðisöflun sbr. 5. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál.
Ég er þess fullviss að ef einhver af biðlistanum, ég tala nú ekki um börnin 91 yrðu spurð hvort brýnna væri að verða þeim úti um þak yfir höfuðið eða byggja ný íþróttamannvirki, stæði ekki á svörum.
Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri grænna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar