fbpx
Þriðjudagur, júní 25, 2024
HeimFréttirPólitíkSjúkrahúsið St. Jósefsspítali starfsemi þess og afskipti stjórnmálamanna

Sjúkrahúsið St. Jósefsspítali starfsemi þess og afskipti stjórnmálamanna

Átta stjórnmálahreyfingar sem bjóð nú fram svöruðu ekki spurningu Hollvinasamtaka

St. Jósefsspítali var stofnaður af reglu St. Jósefssystra og tók til starfa árið 1926. Sjúkrahúsið var í eigu Hafnarfjarðarbæjar og ríkisins eftir að St. Jósefssystur seldu það fyrir 130 milljónir árið 1987, fullbúið sjúkrahús í fullum rekstri. St. Jósefsspítali var vel rekið sjúkrahús og starfsmannavelta var þar sama og engin. Á annan tug þúsunda aðgerða var gerð þar á hverju ári og voru legurými um 50.

Ríkistjórn Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð og Samfylking með heilbrigðisráðherrann Guðbjart Hannesson lokuðu St. Jósefsspítala, án samþykkis Hafnarfjarðarbæjar. Sömu flokkar voru á þessum tíma í meirihluta hjá Hafnarfjarðarbæ.

St. Jósefsspítali var elsta starfandi sjúkrahús landsins, þegar ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð og Samfylking með þáverandi heilbrigðisráðherra Guðbjart Hannesson ákvað að leggja sjúkrahúsið niður. Ákveðið var að hætta starfsemi sjúkrahússins, þvert á gefin loforð til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að starfrækja áfram lyflækningadeild sjúkrahússins. Öll tæki og búnað sjúkrahússins tók meirihlutaeigandinn, ríkið, og ráðstafaði án þess að bera það undir meðeiganda sinn Hafnarfjarðarbæ. Tæki uppá milljónir höfðu líknarfélög í Hafnarfirði gefið sjúkrahúsinu. Hvergi er hægt að finna fundargerðir sem staðfesta jafnáhrifamikla ákvörðun um að loka umdæmissjúkrahúsi sem þjónustaði allt landið með sínum sérgreinum og öllu höfuðborgarsvæðinu sem umdæmissjúkrahús. Hollvinasamtök St. Jósefsspítala hafa sent umboðsmanni alþingis öll þau gögn sem þau hafa komist yfir varðandi lokun sjúkrahússins.

Óteljandi blaðagreinar sýna fram á að ákvörðun um lokun St. Jósefsspítala var röng og staða sjúklinga er verri eftir að St. Jósefsspítala var lokað. Biðlistar eftir aðgerðum eru lengri með verri lífsgæðum sjúklinga. Forvörn varðandi ristilkrabbamein á landsvísu var lögð niður.

Árið 2009 mótmæltu 14.000 Hafnfirðingar fyrirhugaðri breytingu á starfsemi sjúkrahússins og sýndu fram á mikilvægi starfseminnar eins og hún var. Þrátt fyrir það var spítalanum lokað með fjárlögum 2011. Hollvinasamtök St. Jósefsspítala voru stofnuð vorið 2014 og er félagatal á annað hundrað manns. Hollvinasamtök St. Jósefsspítala hafa barist fyrir því að endurreisa heilbrigðisstarfsemi í St. Jósefsspítala.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks með heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson setja St. Jósefsspítala í söluferli. Sjálfstæðisflokkur og Björt Framtíð eru á sama tíma í meirihluta hjá Hafnarfjarðarbæ.

Í janúar 2015 fór St. Jósefsspítali í söluferli eftir ákvörðun heilbrigðisráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar og núverandi ríkistjórnarflokka Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hollvinasamtök St. Jósefsspítala fengu staðfestingu frá Minjastofnun Íslands að allt húsnæði sjúkrahússins hefur varðveislugildi frá sjónarhóli byggingarlistar.

Hollvinasamtök  St. Jósefsspítala skora á alþingismenn með bréfi dagsettu 22.01.2015 að taka málið upp á Alþingi

Einn þingmaður af 63 (Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki) svaraði þessu skriflega erindi Hollvinasamtaka St. Jósefsspítala. Er það ekki skylda þingmanna að svara skriflegum erindum?

Staðan er þannig í dag að sjúkrahúsið St. Jósefsspítali drabbast niður og liggur undir skemmdum. Það vantar legurými í heilbrigðisþjónustu í dag. Með því að endurreisa heilbrigðisstarfsemi í St. Jósefsspítala verður hægt að koma á móts við fjölda sjúklinga því legurými voru um 50 í sjúkrahúsinu þegar það var starfandi ásamt þeirri sérgreinaþjónustu sem var og stytt gæti biðlista sem myndast hafa frá því að St. Jósefsspítala var lokað. Kjósendur gerið kröfu um svör  frambjóðenda í þessu brýna hagsmunamáli sjúklinga.

Þrír framboðsflokkar til núverandi þingkosninga svara erindi Hollvinasamtaka St. Jósefsspítala

Spurningin var þessi ,,Er þinn stjórnmálaflokkur til í að endurreisa heilbrigðisstarfsemi í St. Jósefsspítala” Alþýðufylkingin, segir já. Hún vill byggja upp spítalaþjónustuna um allt landið, og er nágrenni Reykjavíkur meðtalið. Til að byrja með mundi endurreisn St. Jósefsspítala auka framboð á þjónustu og þar með stytta biðlista og þar með létta á Landspítalanum – en líka mundi hún  færa þjónustuna nær fólkinu sem notar hana. Dögun, segir já. Viðreisn tekur ekki afstöðu. Að mati viðreisnar eru stærstu verkefnin í heilbrigðiskerfinu annars vegar að endurforgangsraða ríkisfjármálum í þágu heilbrigðismála almennt og hins vegar  að móta heildarstefnu í heilbrigðismálum sem nær til allra þátta kerfisins. Í því ljósi er ábyrgt að taka einangraða afstöðu til málefna St. Jósefsspítala að svo komnu máli.

Framboðsflokkar sem svara ekki eru:

Píratar,
Samfylking,
Björt Framtíð,
Vinstri hreyfingin grænt framboð,
Sjálfstæðisflokkur,
Framsóknarflokkur,
Þjóðfylkingin,
Flokkur fólksins.

Hollvinasamtök St. Jósefsspítala
Steinunn Guðnadóttir formaður

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2