Sjálfstæðisflokkurinn kynnti áherslur sýnar

Vilja efla þjónustu en lækka gjöld og álögur á íbúa

Sex efstu frambjóðendur Sjálfstæðisflokkins

Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði opnaði kosningaskrifstofu sína á Norðurbakka 1 sl. laugardag og kynnti áherslur flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar undir formerkjunum Höldum áfram – fyrir Hafnarfjörð.

„Við leggjum stolt fram okkar verk og þann góða árangur sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins á kjörtímabilinu. Við vonumst til að fá stuðning kjósenda til að halda áfram á sömu braut við að efla þjónustu sveitarfélagsins og lækka álögur og gjöld á bæjarbúa,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir oddviti Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði. „Það eru fjölmörg tækifæri til að efla bæinn enn frekar og byggja upp á ýmsum sviðum til framtíðar og mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn fái áfram stuðning til að verða burðarafl í næstu bæjarstjórn eins og verið hefur.“

Helstu áherslur Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði eru að:

 • Tryggja að framkvæmdum verði lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar og endurgerð gatnamóta við Setberg og Kaplakrika
 • Halda áfram á braut ábyrgrar fjármálastjórnunar bæjarfélagsins
 • Skipuleggja íbúðir með þjónustukjarna fyrir eldri borgara miðsvæðis á Völlum
 • Endurbyggja Suðurbæjarlaug og stórbæta aðstöðu þar
 • Lækka innritunaraldur barna í leikskóla úr 15 í 12 mánuði
 • Skipuleggja litlar íbúðir/smáhýsi í Hamranesi og tryggja nægt lóðaframboð
 • Halda áfram að lækka útsvar, fasteignaskatta og þjónustugjöld, með sérstakri áherslu á barnafjölskyldur
 • Leggja áherslu á uppbyggingu búsetukjarna fyrir fatlaða
 • Efla list-, og verkgreinar, nýsköpun og tækni í skólastarfi
 • Hækka frístundastyrki og efla frístundaakstur
 • Bæta aðstöðu til útivistar við Hvaleyrarvatn og Kaldársel
 • Leggja áherslu á líðan barna í skólum og snemmtæka íhlutun
 • Halda áfram að treysta fjárhag bæjarins og fjármagna framkvæmdir með eigin fé

Nánari upplýsingar um stefnu flokksins má finna á xdhafnarfjordur.is.

Efstu 6 á lista Sjálfstæðisflokksins eru:

 1. Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs
 2. Kristinn Andersen, verkfr. og bæjarfulltrúi
 3. Ólafur Ingi Tómasson, bæjarfulltrúi
 4. Helga Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi
 5. Kristín Thoroddsen, varabæjarfulltr. og flugfreyja
 6. Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, mannauðsstjóri