Hvort viltu epli eða epli?

Helga Þórunn Sigurðardóttir:

1131

Hvort viltu epli eða epli? Eins og sjá má er þarna ekki um mikið val að ræða. Segja má að grunn- og framhaldskóla kerfið okkar sé að mörgu leiti þannig þ.e.a.s. það er lítið um að velja fyrir ólíka nemendur með fjölbreytta hæfileika.

En í Lækjarskóla í Hafnarfirði er starfrækt Fjölgreinadeild sem kalla má skóla margbreytileikans.

Af mörgum er Fjölgreinadeildin talin flaggskip Hafnar­fjarðar er kemur að menntamál­um og önnur bæjarfélög horfa til og nota sem fyrirmynd. Fjölgreina­deild Lækjarskóla var stofnuð árið 2004 og þróuð áfram af fagfólki með Svein Alfreðsson í fararbroddi en hann skrifaði m.a. M.Ed. lokaverkefni sitt um þróun deildarinnar.

Í Fjölgreinanáminu er hlúð að nemendum sem ekki finna sig í hefðbundnu bóknámi, komið til móts við þarfir þeirra og byggt ofan á hæfileika sem þeir búa yfir. Námið er einstaklingsmiðað og hvetur og styrkir nemendur fyrir frekara nám og atvinnulífið. Mikilvægt er að byggja á styrkleikum nemenda en ekki einblína á það sem þeir eru ekki góðir í. Jákvæð styrking ýtir undir trú þeirra á eigin getu og kann að verða grunnur að lífsgæðum þeirra. Þá er nemendum gert kleyft að vinna í fámennara umhverfi heldur en hinar hefðbundnu skóladeildir bjóða uppá, en það getur skipt sköpum til að þeir fái að njóta sín. Þekkt er að nemendur sem alla fyrri skólagöngu hafa upplifað sig stöðugt vera að tapa fara að finna sig sem sigurvegara og ná að blómstra á einstakan hátt, ólíklegt er að það ætti sér stað í hefðbundnu bóknámi.
Samkvæmt námsskrá á nám að vera einstaklingsmiðað og aðgengilegt öllum, Fjölgreinadeild Lækjarskóla hefur leitast við að koma til móts við það og gera námið merk­ingarbært fyrir nemendur. Aðgangur nemenda að Fjöl­greinadeildinni byggir á faglegum forsendum, en fer ekki eftir efnahag foreldra. Aftur á móti er forsenda þess að nemendur geti sótt um í umrætt nám að það sé til staðar, kynnt þeim og forráðamönnum þeirra, eins verður að vera opið fyrir umsóknir í það.

Nú eru uppi umræður meirihluta Sjálfstæðismanna og Bjartrar framtíðar um að leggja deildina niður vegna „hagræðingar“ á sama tíma og bæjarfélagið hugar að því að styrkja væntanlegan einkaskóla um tugi milljóna á ári. Það er algjörlega glórulaus forgangsröðun sem þarf að laga. Það er einlæg von mín að meirihluti Sjálfstæðismanna og Bjartrar framtíðar búi yfir framtíðarsýn og sjái þörfina við að styðja við áframhaldandi uppbyggingu á Fjölgreinadeildinni í Hafnarfirði og stuðla þannig að menntun einstaklinga sem kunna að búa yfir góðum hæfileikum en finna sig ekki í hefðbundnu bóknámi.

Höfundur er varabæjarfulltrúi og tómstunda- og félagsmálafræðingur.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here