Tillaga að fjárhagsáætlun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær.
Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði lækki með lægri vatns- og fráveitugjöldum sem nemur hækkun fasteignamats umfram verðlag og að heildarálagning fasteignagjalda fari úr 0,744% í 0,704% sem samsvari 312 milljónum króna lækkun gjaldanna.
Hér þarf að staldra við og skoða hvað kallað eru fasteignagjöld því hér er jafnt talað um skatta og gjöld sem er tvennt ólíkt.
Fasteignaskattur er skattur sem lagður er á fasteignir eftir verðmæti þeirra (fasteignamati).
Vatnsgjald er þjónustugjald fyrir vatnsnotkun sem heimilt er að innheimta til reksturs vatnsveitu en ekki sem tekjustofn fyrir sveitarfélagið.
Fráveitugjald er þjónustugjald vegna tengingar við fráveitukerfi bæjarins og er heimilt að innheimta til reksturs fráveitukerfisins.
Gríðarlegur hagnaður hefur verið af rekstri Vatnsveitu og Fráveitu sem eru B-hluta stofnanir ef marka má hlutfall tekna miðað við gjöld eins og það er framsett í ársreikningi bæjarins. Hins vegar eru þessar stofnanir ekki gerðar upp sérstaklega og því kemur ekki fram hvað lagt er til framkvæmda og hver raunniðurstaða er hverju sinni. Í raun hafa bæjarbúar verið ofrukkaðir og því hefur verið nauðsynlegt að lækka gjöldin enda hefur kostnaður við rekstur ekkert að gera með hækkun fasteignamats sem þessi gjöld eru grundvölluð á.
Þó búist sé við að tekjur af fasteignasköttum verði verulega lægri í ár en áætlun gerði ráð fyrir þá er gert ráð fyrir í útkomuspá fyrir 2022 að tekjur bæjarsjóðs af fasteignasköttum hækki um 31,6% frá árinu 2021.
Tekjur af fasteignaskatti tvöfaldast frá 2016
Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að fasteignaskattar árið 2023 verði 4.880.416 milljónir kr. og hækki um 16,5% frá útkomuspá fyrir 2022. Taka þarf tillit til þess að íbúðum og atvinnuhúsnæði hefur fjölgað mikið, sérstaklega á allra síðustu árum.
Þrátt fyrir lækkun á álagsprósentu fasteignaskatts undanfarin ár þá hafa tekjur sveitarsjóðs hækkað um 73,2% frá árinu 2016 ef miðað er við útkomuspá 2022 og um rúm 100% ef miðað er við fjárhagsáætlun fyrir 2023. Frá 2016 hefur íbúum bæjarins fjölgað um rúm 6%.
Lækkun gjalda vegur ekki upp á móti hækkun fasteignaskatta vegna mikillar hækkunar fasteignamats. Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ er sagt að fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði lækki með lægri vatns- og fráveitugjöldum sem nemi hækkun fasteignamats umfram verðlag. Upplýst er að heildarálagning fasteignagjalda fari úr 0,744% í 0,704% sem samsvari 312 milljónum króna lækkun gjaldanna.
Þessi lækkun er 5,376% en fasteignamat íbúðarhúsnæðis hefur í mörgum tilfellum hækkað miklu meira og eigendur þurfa að greiða hærri upphæð en áður.
Hlutfall fasteignaskatts af heildarskatttekjum hækkar
Árið 2004 var hlutfall fasteignaskatts 12,75% af heildarskatttekjum bæjarins. Frá 2016 til 2021 hefur hlutfallið verið frá um 13,5% til 14,53%. Miðað við útkomuspá fyrir 2022 er gert ráð fyrir að hlutfall fasteignaskatts sé 16,64% af heildar skatttekjum þrátt fyrir að búist sé við að tekjur af fasteignaskatti verði verulega lægri en áætlað var.
Miðað við fjárhagsáætlun fyrir 2023 er gert ráð fyrir að hlutfall fasteignaskatts af heildarskatttekjum sveitarfélagsins verði 18,24% og hefur líklega aldrei verið svo hár.
Tillaga að fjárhagsáætlun 2023-2026 og málaflokkayfirlit
Engir ársreikningar á nýrri heimasíðu Hafnarfjarðar
Einhverjir hnökrar virðast vera á innleiðingu á nýrri heimasíðu Hafnarfjarðarkaupstaðar en síðan lá niðri í gær og nú er hún með takmörkuðum upplýsingum, t.d. engum ársreikningum eða fjárhagsáætlunum.
Fyrri ársreikninga Hafnarfjarðarkaupstaðar má sjá hér.