Bæjarráð samþykkir nú reglur um styrki til húsverndar sem tóku gildi fyrir ári

Sjóður eða ekki sjóður?

Ráðhús Hafnarfjarðarbæjar

Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar 5. apríl sl. voru „Reglur um styrki til húsverndunar í Hafnarfirði“ lagðar fram til samþykktar sem bæjarráð samþykkti, líklega einróma en ekki er getið nánar um samþykktina í fundargerð.

Það sem vekur athygli er að í þessum reglum er sagt að reglurnar taki gildi 13. janúar 2022 með samþykki menningar- og ferðamálanefndar.

Viðbrögð við frétt Fjarðarfrétta

Í frétt Fjarðarfrétta frá 23. mars þar sem sagt er frá styrkveitingum menningar- og ferðamálanefndar er sagt er frá því að hvergi væri að finna á vef bæjarins neitt um tilvist húsverndarsjóðs sem þó er getið í auglýsingu um styrkina. Við nánari skoðun á vef Hafnarfjarðarkaupstaðar mátti þó finna  „Samþykkt um styrki til húsverndar í Hafnarfirði“ sem eru nákvæmlega sömu reglur og bæjarráð hefur nú samþykkt. Fjarðarfréttir hafði sent fyrirspurn til bæjarlögmanns um það hvort nefnd á vegum bæjarins gæti samþykkt reglugerð og jafnvel fellt úr gildi reglugerð sem ráð bæjarins samþykkti.

Ekkert svar barst við þessari fyrirspurn en líta má á samþykkt bæjarráðs sem viðbrögð við þessari fyrirspurn.

Húsverndarsjóður sem alls ekki er sjóður

Eftir stendur að í reglunum um styrki til húsverndar er í 1. grein fjallað um hlutverk húsverndarsjóðs Hafnarfjarðar. Hvergi er að finna neinar samþykktir um þennan sjóð og raunar má í sömu grein sjá að þetta er alls ekki neinn sjóður þar sem ráðstöfunarfé sjóðsins er í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar ár hvert.

Úr samþykkt um styrki til húsverndar í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli