fbpx
Laugardagur, maí 18, 2024
HeimFréttirÓk vikulega frá Súðavík til Reykjavíkur í guðfræðinám

Ók vikulega frá Súðavík til Reykjavíkur í guðfræðinám

Margrét Lilja Vilmundardóttir er nýr prestur í Fríkirkjunni

Hafnfirðingurinn Margrét Lilja Vilmundardóttir hlaut prestvígslu 7. mars sl. í Dómkirkjunni í Reykjavík en hún var vígð til prestþjónustu við Fríkirkjuna í Hafnarfirði þar sem hún hefur verið starfandi í söfnuðinum og sömuleiðis verið kirkjuvörður í Víðistaðakirkju.

Biskupi Þjóðkirkjunnar er heimilt, sé eftir því leitað, að vígja til þjónustu prest eða djákna innan hinna evangelísk-lútersku fríkirkjusafnaða sem starfa á sama játningagrundvelli og þjóðkirkjan. Var Margrét Lilja ekki eini guðfræðingurinn utan Þjóðkirkjunnar sem fékk prestvígslu því Sigurður Már Hannesson var vígður til prestþjónutu hjá Kristilegu skólahreyfingunni þar sem hann hefur starfað um nokkurt skeið.

Síðar um daginn var Guðsþjónusta í Fríkirkjunni þar sem sr. Margrét Lilja prédikaði í fyrsta sinn.

Þrír fastráðnir prestar en enginn í fullu starfi

Töluverðar breytingar hafa orðið í starfi Fríkirkjunnar en á síðasta ári var sr. Sigurvin Lárus Jónsson ráðinn tímabundið til starfa og sr. Sigríður Kristín Helgadóttir sagði starfi sínu lausu.

Að sögn Einars Sveinbjörnssonar, formanns safnaðarstjórnar Fríkirkjunnar í Hafnarfirði bauð safnaðarstjórnin Margréti Lilju starfið en hún útskrifaðist úr guðfræðideild Háskóla Ísland í febrúar sl. Segir Einar að Margrét Lilja hafi verið með í fermingarbarnastarfinu í vetur og segir ekki hafi veitt af enda séu fermingarbörnin 170 talsins.

Fríkirkjan hefur því ekki auglýst eftir prestum til starfa.

Segir hann nú þrjá presta verða starfandi en enginn þeirra í fullu starfi. Sigurvin sé nú fastráðinn og sr. Einar Eyjólfsson minnki við sig störf.

Hefur alltaf verið mikið í kirkjustarfi

Blaðamaður Fjarðarfrétta hitti Millu, eins og Margrét Lilja er að jafnaði kölluð, í safnaðarheimili Fríkirkjunnar og spurði hana hvað hafi leitt hana guðfræðina.

„Ég hef alltaf verið mikið í kirkjustarfi. Ég ólst upp í litlu sjávarplássi, Vopnafirði, þar sem ég bjó fyrstu árin, en föðurfólkið mitt er héðan úr Hafnarfirði og bjó á litla bænum Króki, við Garðakirkju.  Fyrir austan bjó ég í algjörlega vernduðu umhverfi þar sem var mikið og sterkt kirkjustarf. Þar var ekki mikið um að vera nema fótbolti og sunnudagaskóli og ég er ekkert rosalega sleip í fótbolta,“ segir Milla, eins og hún er alltaf kölluð, og hlær, „svo ég fór mikið í kirkjustarfið, sem hefur svo sannarlega verið mín blessun. Á Vopnafirði var sterkt barnastarf bæði í Þjóðkirkjuna sem þar var ég líka í Hvítasunnukirkjunni. Ég var því alin upp til helminga á þessum stöðum, mamma var með sunnudagaskólann í Þjóðkirkjunni lengi vel, þar mætti ég alltaf kl. 11 á sunnudögum en svo fórum við seinna um daginn í Hvítasunnukirkjuna. Þar vann líka dásamlegt fólk þannig að þessi áhugi byrjaði sennilega þar.

Síðan fór ég að gera allt aðra hluti og ætlaði í raun ekki í bóklegt háskólanám. Listin kallaði á þessum tíma en ég kláraði dansnám frá Listdansskóla Íslands meðfram stúdentsprófi. Ég slasaði mig svo í baki þegar hugurinn stefndi út í heim í frekara dansnám.

Ég hef alltaf verið trúuð en hafði aldrei séð fyrir mér þann möguleika að starfa á þeim vettvangi. Ég veit ekki af hverju. Ég sá þarna fyrir tilviljun bækling þar sem var verið að auglýsa guðfræðina í Háskólanum. Og ég horfði á hann og hugsaði með mér af hverju mér hefði aldrei dottið í hug að læra guðfræði? Eins og þetta er nú spennandi nám! Ég hóf námið samt ekki með það í huga að verða prestur, heldur fannst mér þetta spennandi vettvangur.“

Hvernig fannst þér guðfræðideildin hafa áhrif á þig og þína trú?

„Þetta er svolítið merkilegt. Við höfum rætt þetta svolítið í guðfræðideildinni. Sumir sem koma þarna inn, fullvissir um að þeir ætli að verða prestar, fara svo að gera eitthvað allt annað, svo koma aðrir inn sem eru kannski með hugann opinn fyrir svo mörgu, jafnvel einhverju allt öðru, og enda svo á því að fara alla leið í magisterinn.“

Segir Milla guðfræðideildina vera akademískt nám, mjög krefjandi á köflum og hún hafi oft staldrað við. Hún eignaðist þrjú börn á meðan hún var í náminu og bjó í Súðavík í sjö ár og tekur fram að guðfræðin sé því miður ekki kennd í fjarnámi.

„Ég kláraði BA námið og hélt þá að ég væri búin með háskólanám. Við maðurinn minn fluttum vestur en svo vill svo til að maður leiðist oft aftur að grunninum. Í Súðavík er ekki prestur búandi á staðnum, heldur sinnir presturinn í Bolungavík Súðavík líka. Þannig að við vorum farin að vera með sunnudagaskóla í sjálfboðavinnu, ég og maðurinn minn. Þar fann ég hversu mikið ég saknaði þess að starfa innan kirkjunnar og að starfið kallaði á mig. Við vorum á tímamótum, ég var að klára fæðingarorlof með þriðja barninu og þá fann ég að ég þurfti að ljúka náminu. Ég skráði mig því aftur í skólann í magisternám fyrir tveimur árum síðan.

Ég keyrði á hverjum fimmtudegi í heila önn frá Súðavík til Reykjavíkur í skólann, með Úu mína í aftursætinu, þá var hún 6 mánaða, en þarna var ég búinn að ákveða að ég ætlaði að verða prestur.“

Svo fluttum við fjölskyldan til Hafnarfjarðar og greinilegt að Milla var tilbúin að leggja mikið á sig fyrir námið og segist hún ekki sjá eftir því.

Hvað verður til þess að þú kemur til Fríkirkjunnar?

„Það atvikaðist þannig að fyrst þegar ég var í BA náminu var ég að vinna í Fríkirkjunni í Reykjavík, það var í rauninni tilviljun þarna allra fyrst, því ég bjó þar í götunni fyrir ofan. Það var búið að nefna við okkur í náminu að það væri mjög mikilvægt að við fyndum okkur kirkjustarf með. Ég var bíllaus námsmaður og Fríkirkjan í næsta nágrenni. Þar var dásamlegt að vera og ég lærði mikið í barna – og fermingarstarfi.  Móðurfjölskyldan mín, sem eru úr miðbæ Reykjavíkur var í hópi þeirra sem stofnuðu kirkjuna á sínum tíma. Þegar við fjölskyldan flytjum frá Súðavík til Hafnarfjarðar þá var nú eitt af því fyrsta sem ég tók eftir það lifandi starf sem fer fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði, það fer ekki fram hjá neinum.

Hér í Fríkirkjunni í Hafnarfirði er unnið mjög metnaðarfullt starf, sem rímar mjög vel við þá áherslur sem ég hef í trú og trúarlífi.  Ég er frjálslyndur guðfræðingur og hef gaman af að prófa allskonar nýjar hugmyndir og það er rými fyrir það innan kirkjunnar. Þetta er svona sveitakirkja í bæ og það finnst mér heillandi. Þegar maður býr úti á landi er kirkjan svo mikill miðpunktur. Þannig er Fríkirkjan. Ég tengdi strax við starfið sem fram fór í kirkjunni og bauð svo fram krafta mína. Ég hafði starfað sem kirkjuvörður í Víðistaðakirkju með náminu og kynntist sr. Einari, Fríkirkjupresti, í gegnum útfarir sem hann sinnti þar.  Ég þekkti hann í raun og veru ekki neitt þarna, en mér fannst hann gefa mjög mikið af sér. Ég spurði hann hvort það vantaði ekki kvenmann í hópinn sem gæti tekið þátt í fermingarfræðslunni og það var svo rosalega vel tekið í það.

Mér fannst mjög einstakt að þegar ég gekk hérna inn í fyrsta skipti fannst mér eins og ég þekkti alla. Það var svo mikill samhljómur með öllu því sem þessi kirkja stendur fyrir, og þeirri trú og guðfræði sem ég hef. Hér finn ég mig heima.“

Leggur áherslu á kærleiksþjónustu

Aðspurð hvort hún muni leggja áherslu á eitthvað sérstakt í sínu starfi segir Milla að hún muni leggja áherslu á kærleiksþjónustuna. „Að maður eigi vin í samfélaginu, sama hvaðan maður kemur og hverju maður trúir. Að eins og maður talar um vin í eyðimörk, að Fríkirkjan sé svona vin í samfélaginu þar sem allir eru velkomnir. Þar grundvallast mín trú; að kærleikurinn sé fyrir alla.“ Hér er líka mikið  æskulýðsstarf sem mér finnst skipta öllu máli. Sunnudagaskólinn gengur fyrir á sunnudögum í kirkjunni. Svo röðum við hinni dagskránni í kringum það. Þetta finnst mér svo mikill miðpunktur af því að framtíðin okkar byggist á börnunum.“

Aðspurð um minnkandi aðsókn og þátttöku svarar Milla því til að hún hafi einmitt tekið eftir því hversu mikil þátttakan sé í Fríkirkjunni almennt. „Ég held að við séum á svolítið breyttum stað, fólk kemur nú öðruvísi að kirkjunni heldur en fyrir 10-20 árum. Börn koma allt öðruvísi undirbúin t.d. inn í fermingarstarf af því að þau hafa ekki fengið eins mikla fræðslu um kristna trú eins og t.d. þegar ég var yngri. Ég man þegar ég fór í fermingarfræðsluna var búið að kenna manni margt, ekki bara heima, heldur líka í skólanum. Við erum með öðruvísi hópa núna sem eru engu að síður ekki minna andlega þenkjandi. Bara með annan grunn en ég hafði á sínum tíma. Mér finnst fermingarungmennin vera svo opin og tilbúin að læra og ekki síður að koma með eitthvað inn í umræðuna.

Ég held að fólk sæki í hluti sem eru góðir og veitir þeim andlega vellíðan,“ segir Margrét Lilja og greinilegt er að hún brennur fyrir sínu starfi.

Margrét Lilja og fjölskylda.

Margrét Lilja er gift Pétri Georg Markan sem er BA guðfræðingur og er samskiptastjóri Biskupsstofu og eiga þau þrjú börn.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2