Of mikill hraði í hringtorgum í þéttbýli

Rétt hönnun hringtorganna getur lækkað hraða

Horft vestur Hjallabraut að hringtorgi

Við hönnun hringtorga skiptir miklu máli að velja útfærslu sem stuðlar að ásættanlegum umferðarhraða miðað við aðstæður hverju sinni.

Verkfræðistofan Efla skoðaði samspil hönnunar hringtorga og umferðarhraða fyrir hringtorg í þéttbýli og birti nýlega skýrslu um verkefnið og styrkti Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar verkefnið.

Dæmigert dreifbýlishringtorg. (Sænskt)

 

Hraði ökutækja í fríu flæði var mældur við 6 hringtorg, þar sem 4 voru í þéttbýli og 2 í dreifbýli. Eitt þessara hringtorga var hringtorg á mótum Hjallabrautar og Miðvangs í Hafnarfirði.

Sérhvert hringtorg var myndað í um 20 mínútur en gætt var þess að ná a.m.k. 30 ökutækjum sem aka í frjálsu flæði beint áfram eftir aðalvegi í gegnum hringtorg (þ.e. önnur beygja úr hringtorgi). Með frjálsu flæði er átt við, að engin ökutæki eða aðrir vegfarendur höfðu áhrif á hraða viðkomandi ökutækis við akstur að og í gegnum hringtorgin en það var ákvarðað við skoðun á myndbandsupptöku. Mælingar voru gerðar utan háannatíma til að auka líkur þess að geta mælt ökutæki í frjálsu flæði.

Dæmigert þéttbýlishringtorg. (Danskt)

Hraði of hár við inn- og útkeyrslur

Niðurstöður fyrir hringtorg í þéttbýli leiddu í ljós að 85% hraði við inn- og útkeyrslu allra hringtorganna mældist yfir 30 km/klst. Gangandi og hjólandi vegfarendur þvera öll hringtorgin og hraði því of hár við inn- og útkeyrslur að mati skýrsluhöfunda.

Tvíbreið hringtorg leyfa enn meiri hraðakstur þar sem ökutæki nýta sér alla breiddina til að auka hraða sinn. Með þetta til hliðsjónar er mælt með að við hönnun hringtorga í þéttbýli miði að því að hraði sé lágur við inn- og útkeyrslur. Segir í skýrslunni að hægt sé að stuðla að lægri hraða með litlum radíus á inn- og útkeyrslum, réttri útfærslu miðeyja á örmum og með radíus miðeyju hringtorgsins á bilinu 10-20 m.

Niðurstöður fyrir dreifbýli sýndu að hringtorg ná að draga verulega úr hraða ökutækja og henta þau því vel til lækkunar á umferðarhraða.

Hringtorgið á Hjallabraut og Miðvangi

Hringtorgið er fjögurra arma einbreitt hringtorg með 7,2 m breiðum akreinum. Miðeyjan er 17,7 m í þvermál. Gönguþveranir eru á öllum örmum nema vestan megin við hringtorgið. Í um 70 m fjarlægð í vestur frá hringtorginu er ljósastýrð gönguþverun.

Hringtorgið á Hjallabraut og Miðvangi. (Nettó neðst til vinstri)

Torgið hefur nokkuð samhverfa hönnun og með krappa radíusa inn og út, og myndi flokkast sem dönsk hönnun. Hringtorgið er í þéttbýli og eru hús staðsett nálægt veginum. Miðeyja er á milli akreina á öllum örmum nema norður armi. Hins vegar er þar hraðahindrun og 30 km skilti. Kantsteinn er á ytri köntum hringtorgsins og miðeyjan hefur (lítið) yfirkeyranlegt svæði. Samtals náðust 25 mælingar af ökutækjum í frjálsu flæði milli inn-og útkeyrsla A-C og C-A.

50 km hámarkshraði er á Hjallabraut en hraði um 45 m frá hringtorginu var að meðaltali 35 km/klst. Hraðinn inn í hringtorgið var svo 28,2 km/klst að meðaltali og 29,5 út úr hringtorginu. Ökuhraðinn var svo kominn í 37,6 km/klst um 45 m eftir hringtorgið. Mestur hraði mældist út úr hringtorginu í átt að Breiðvangi (A) en þar mældist meðalhraðinn 31,4 km/klst. Þar er ekki gönguþverun en gönguljós um 70 m frá hringtorginu.

Yfir 30 km hraði í hringtorginu

En tölurnar breytast þegar tekið er mið af hraða 85% ökutækja, þ.e. þegar hægustu og hröðustu hafa verið tekin frá. Þá hækkar hraðinn og er 40,4 km/klst fyrir hringtorgið, 34 km/klst inn í hringtorgið, 35 km/klst út úr því og 45,2 km/klst 45 m eftir hringtorgið. Þetta er talið of mikill hraði þar sem gangandi umferð þverar en miðað er við að hraðinn sé á bilinu 25 til 30 km/klst. Fer hraðinn mest í 38,7 km/klst út úr hringtorginu í átt að Breiðvangi.

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here