Oddfellowar kosta endurbætur á 3. hæð St. Jóh.

Dagdeildir Alzheimer- og Parkinsonsamtakanna verða þar til húsa

Aðstandendur samkomulagsins. Steindór Gunnlaugsson formaður StLo, Vilborg Jónsdóttir formaður Parkinsonsamtakanna, Magnús Sædal byggingarstjóri StLo, Ragnheiður Agnarsdóttir verkefnisstjóri Lífsgæðaseturs St. Jó, Ólöf Pálsdóttir gjaldkeri StLo, Árni Sverrisson formaður Alzheimersamtakanna, Ágúst Bjarni Garðarsson bæjarfulltrúi og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa og Hafnarfjarðarbær undirrita samkomulag um framkvæmdir við dagdeildir Alzheimer- og Parkinsonsamtakanna í St. Jó.

Síðasta vetrardag gengu Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa (StLO) og Hafnarfjarðarbær frá samkomulagi um framkvæmdir við dagdeildir Alzheimer- og Parkinsonsamtakanna á 3. hæð á Lífsgæðasetri St. Jó við Suðurgötu 41.

Unnið hefur verið að útfærslu samkomulagsins á síðustu vikum en það felur í sér að StLO sjái alfarið um framkvæmdir á 3. hæð og beri kostnað vegna þeirra gegn því að Hafnarfjarðarbær geri leigusamninga við Alzheimer- og Parkinsonsamtökin til 15 ára. Alzheimer- og Parkinsonsamtökin munu á 3. hæð Lífsgæðasetursins setja á fót dagdeildir fyrir einstaklinga sem hafa nýlega greinst með heilabilun eða Parkinson. Dagdeildunum er ætlað að vinna markvisst að því að viðhalda lífsgæðum þeirra sem veikjast með alhliða þjálfun og ráðgjöf ásamt því sem aðstandendur þeirra fá fræðslu og stuðning.

 

Ummæli

Ummæli