Umhverfisstofnun hefur eftir samráð við sóttvarnarlækni lagt til að flokkun úrgangs með loftblæstri verði hætt tímabundið til að draga úr smithættu vegna Covid-19 veikinnar.
Það þýðir að ekki má nýta vindflokkara fyrir plast í pokum í móttöku- og flokkunarstöð Sorpu á meðan þetta ástand varir.
Á þetta við um vindflokkarann Kára sem notaður er til að flokka plast í pokum frá heimilisúrgangi í Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Íbúar í þeim sveitarfélögum sem skila plasti í pokum með heimilissorpi eru beðnir um að skila flokkuðu plasti á grenndarstöðvar eða á endurvinnslustöðvar þar til tilkynnt verður um annað.