Samgöngustofa hefur opnað rafræna skráningu á eldri léttum bifhjólum í flokki I sem keypt voru fyrir 1. janúar 2020 og innan skamms verða öll slík ökutæki komin með appelsínugular númeraplötur sem eykur rekjanleika og eftirlit. Þau hjól sem keypt eru eftir 1. janúar sl. hafa þegar verið skráð hjá söluaðilum.
Mun ódýrara að skrá strax
Fram til 1. júlí 2021 kosta aðeins 600 kr. að skrá létt bifhjól en eftir það hækkar gjaldið í 4.210 og 7.020 ef hjólið er ekki gerðaviðurkennt. Ávallt þarf að greiða fyrir númeraplötu, 2.665 og skráningarskoðun og nýskoðun hjá skoðunarstöð en reikna má með að slíkt gjald sé um 12.000 kr.
Hægt er að skrá hjólin hér.
Skoðunarskylda en ekki vátryggingarskylda
Létt bifhjól í flokki I eru skoðunarskyld en aðeins þarf að fara með þau í skoðun við nýskráningu og við eigendaskipti.
Má aka á gangstéttum
Það er heimilt að aka léttum bifhjólum í flokki I á gangstétt, hjólastíg eða gangstíg, svo framarlega sem það veldur ekki hættu eða óþægindum fyrir gangandi vegfarendur eða ef lagt hefur verið bann við því.
Þessum hjólum má aka á akbraut, en ekki er mælt með því að þessi tæki séu notuð í almennri umferð þar sem hraði er meiri en 50 km/klst þótt það sé heimilt. Ökumaður á almennt að halda sig hægra megin á þeirri akrein sem lengst er til hægri. Þó er óhætt að aka á miðri akrein á vegi þar sem hámarkshraði er ekki meiri en 30 km.
Á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum.
Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða gangstíg er skylt að aka hjólinu á hjólastígnum. Ef ökumaður hjólsins þverar akbraut frá gangstíg skal hann ekki aka hraðar en sem nemur venjulegum gönguhraða.
20 þús. kr. sekt við broti á reglum um akstur léttra bifhjóla
Þeir sem brjót sérreglur um akstur léttra bifhjóla í flokki I geta átt von á 20.000 kr. sekt.
Eftirfarandi ökutæki tilheyra léttum bifhjólum í flokki I og eru skráningarskyld:
- Létt bifhjól/vespur sem komast að hámarki 25 km á klst.

- Reiðhjól með hjálparmótor sem er yfir 250 W

- Rafskutla með hámarkshraða 25 km á klst

Vélknúin hlaupahjól (rafmagnshlaupahjól) tilheyra flokki reiðhjóla og teljast því ekki, létt bifhjól í flokki I. Rafmagnshlaupahjól eru hönnuð til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst.