Mikill viðbúnaður var hjá Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins og lögreglu er tilkynning barst á áttunda tímanum í kvöld um eld í íbúð í fjölbýlishúsi við Sóleyjarhlíð.
Fjórir slökkvibílar og fjórir sjúkrabílar komu á staðinn en eldur logaði á þriðju hæð að Sóleyjarhlíð 3, sem er 9 íbúða fjölbýlishús, 2 íbúðir öðru megin við stigagang og ein hinum megin, en þar var eldurinn.
Fljótlega gekk að slökkva eldinn en ekki var hægt að fá upplýsingar á staðnum um skemmdir en allt benti til þess að enginn hafi komið til skaða.
Fólk festist í íbúð á efstu hæð og búið var að reisa stiga að svölum til að gefa þeim kost á að koma niður. Einhverjir fóru lítt klæddir út og viðbragðsaðilar voru mættir með teppi.
Greinilegt var að fólk var í áfalli enda hefði getað farið mikið verr.
