fbpx
Fimmtudagur, júní 13, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífTillögur um lífsgæðasetur í St. Jósefsspítala

Tillögur um lífsgæðasetur í St. Jósefsspítala

Í nóvember sl. samþykkti bæjarráð að fela starfshópi um notkun húsnæðis St. Jósefsspítala að útfæra nánar tillögu hópsins um Lífsgæðasetur undir yfirskriftinni HEILSA – SAMFÉLAG – SKÖPUN.

Í starfshópnum voru: Guðrún Berta Daníelsdóttir, Karl Guðmundsson, Sigríður Björk Jónsdóttir, Elva Dögg Ásu- og Kristinsdóttir en starfsmaður og verkefnisstjóri var Sigríður Kristinsdóttir.

Hópurinn skilaði af sér nýlega og er lagt til að í húsinu verði samfélag sem býður upp á forvarnir , heilsuvernd, snemmtæka íhlutun, fræðslu og skapandi setur. Telur hópurinn að ákjósanlegast væri ef stofnað yrði sér félag utan um rekstur húsnæðisins. Myndaður yrði samstarfsvettvangur í stað stjórnar til að forðast fjárhagslegar skuldbindingar stjórnarmanna og tryggja að bæði Hafnarfjarðarbær og aðilar úr atvinnulífinu hafi aðkomu að rekstri hússins.

Telur hópurinn að áður en verkefnið fari mikið lengra þurfi að ráða verkefnastjóra. Hlutverk verkefnastjóra væri að halda utan um alla starfsemi hússins fyrir samstarfsvettvang, vera tengiðliður við bæjaryfirvöld og sinna þjónustu og samskiptum við leigjendur í húsinu.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í gær, þar sem tillögur hópsins voru kynntar, að fela bæjarstjóra að undirbúa ráðningu verkefnastjóra og skipan samstarfsvettvangs um rekstur starfsemi í St. Jósefsspítala. Erindisbréf samstarfsvettvangs á að leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.

Útttekt var gerð á húsnæðinu á síðasta ári og skv. henni munu viðgerðir á húsinu kosta um 220 milljónir kr.

Tillögunum er skipt niður eftir húsnæðishlutum og í megindráttum eru tillögur hópsins eftirfarandi.

Kapellan

Kapellan sem er 112 m² verður samkomustaður hússins og mætti nýta til fjölbreyttra mannamóta. Kapellan getur nýst vel sem fundarsalur, undir námskeið, létta leikfimi. Utan opnunartíma væri hægt að leigja hana fyrir fundi , til félagasamtaka og atburða á vegum þeirra sem reka starfsemi í St. Jósefsspítala.

Kapellan er hugsuð sem aðstaða fyrir þá rekstraraðila sem eru með starfsemi í húsinu og þurfa tímabundið á auknu plássi að halda. Kapellan er mikilvæg fyrir lífsgæðasetur og mun virka sem n.k. útvíkkun á starfsemi þeirra aðila sem munu leigja í húsinu og því verður mikilvægt að koma kapellunni í notkun sem fyrst.

Kjallarinn

Tilraunaeldhúsið – Kjallari – 337 m²

Í kjallara hússins er eldhúsið og tengd rými þar sem mögulegt er að halda einhvers konar eldhússtarfsemi áfram. Þar mætti standa fyrir námskeiðum fyrir ýmsa hópa í fjölbreyttum tilgangi. Einstaklingar sem ekki hafa áður þurft að sjá um mat en standa einir í lífinu. Næringarfræðingar gætu t.d. staðið fyrir námskeiðum í samvinnu við félagasamtök.

Einnig gæti eldhúsið nýst sem tilraunaeldhús fyrir sprotafyrirtæki í matvælaiðnaði þar sem fyrstu skref vöruþróunar væru tekin.

Þvottahúsið/Röntgen – Kjallari – 200 m²

Hér væri hægt að hafa ýmis rými sem tengjast rekstri hússins eins og geymslur, tæknirými og önnur rými sem ekki krefjast þess að mikil umferð sé þar um. Þar sem lögð er áhersla á sveigjanleika í starfsemi hússins, má gera ráð fyrir auknu geymsluplássi fyrir húsgögn og skilrúm og fleira sem tengist starfseminni.

Fyrsta hæð – Heilsuefling og forvarnir – 509 m²

Á fyrstu, annarri og þriðju hæð er 50 m² sameiginlegt rými eða hjartað í húsinu. Þetta rými er jafnstórt á öllum hæðunum og getur nýst sem samkomustaður eða félagsrými þar sem ýmsir aðilar sem annað hvort starfa við eða koma í lífsgæðasetur geta komið saman.

Fyrsta hæðin er aðalhæð hússins og hefur hún afar gott aðgengi. Þess vegna er lagt til að þar verði starfsemi sem tengist heilsueflingu og forvörnum af ýmsu tagi. Einnig eru þar að finna fjölbreytt rými að gerð og stærð sem geta hentað sem bæði skrifstofur eða meðferðarrými eða jafnvel  fyrir endurhæfingu.

Suðurhluti – Lyflækningar

Rýmin eru frekar stór í þessum hluta hússins og væri á auðveldan hátt hægt að sameina rými til að fá allt að 40-60 m² rými. Hér væri tilvalið að hafa þjónustu við eldri borgara sem taka þátt í heilsueflingu og/eða einstaklinga með skerta hreyfifærni. Í stærri rýmum væri mögulegt að bjóða upp á mælingar eða létta leikfimi fyrir smærri hópa. Í smærri rýmum væri hægt að vera með viðtalstíma og ráðgjöf.

Norðurhluti og Hjartað

Í þessum hluta hússins er blanda af stærri og minni rýmum sem geta nýst fyrir skrifstofur, viðtalsherbergi, fundarherbergi tengd heilsueflingu og stjórnun hússins.

Í miðjurými er stórt opið svæði sem myndi vera tilvalið fyrir kaffistofu eða samverurými fyrir starfsfólk og gesti hússins. Mikilvægt er að gera heimilislega stemmingu sem gerir fólki auðvelt fyrir að eiga óformlega fundi og ýta undir samstarf og samvinnu allra sem í húsinu eru.

Önnur hæð –  Skapandi kjarni – 518 m2

Suðurhluti – Handlækningar/skurðstofur

Skurðstofurnar eru skemmtileg og öðruvísi rými en öll önnur rými í húsinu. Þær eru 32 m² annars vegar og 36,7 m² hins vegar. Lagt er til að þessi hluti hússins verði nýttur fyrir skapandi starfsemi., t.d. myndlistarnámskeið og hönnunarnámskeið, og jafnvel listþerapíu.

Hugmyndin er að útbúin verði myndlistarverkstæði og hönnunarverkstæði fyrir skapandi starf, einnig getur nýsköpun og önnur starfsemi hússins nýtt sér verkstæðin.

Skurðstofurnar henta vel til myndlistarkennslu og mögulegt væri að eiga samstarf við starfandi myndlistarskóla um að setja upp útibú í þessu rými eða fá aðila til að taka að sér námskeiðahald. Myndlistarskóla sem kennir klassísk myndlistarnámskeið og hönnun, teikningu, málun, keramik, mótun, vatnslitamálun og fl. Slík námskeið gætu verið fyrir annarsvegar börn og unglinga og hinsvegar fyrir fullorðna. Slík námskeið eru alla jafna seinnipart dags, eftir skóla fyrir börnin og fullorðna sem eru á vinnumarkaði en gætu verið á morgnana og eftir hádegi fyrir t.d.  eldri borgara og þá sem eru í endurhæfingu. Hægt væri að bjóða þeim aðilum sem eru í húsinu og öðrum sem vilja að nýta aðstöðuna. Sem dæmi: ef starfsemi Lækjar flyst í húsið geta þeir sem þangað koma nýtt sér aðstöðuna fyrripart dags eða þar til námskeið hæfust seinnipart dags. Einnig má nefna listmeðferð fyrir þá sem eru í endurhæfingu og myndlistar- og hönnunarnámskeið fyrir fólk með fötlun sem verður með aðstöðu í skattstofunni neðar  við götuna. Mikilvægt er að veita sem flestum aðgang að þessum skapandi rýmum.

Norðurhluti og Hjartað

Á svipaðan hátt og á fyrstu hæð eru blönduð rými í þessum hluta. Í miðjurýminu er opið svæði fyrir samveru og kaffistofu. Í skrifstofum og sjúkrastofum leggjum við til að blanda nýsköpunarstarfsemi með aðstöðu fyrir smærri fyrirtæki. Mikilvægt væri að leggja upp með einhvers konar klasasamstarf, t.d. á sviði lífsgæða, lýðheilsu, heilbrigðistækni eða heilsu þannig að þessi starfsemi geti nýst heildarstarfseminni. Slík aðstaða ætti að vera eftirsóknarverð með tilliti til aðgengis að notendahópum og raunverulegri endurgjöf á vörur eða þjónustu. Skortur er á aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki í bænum og yrði slík aðstaða án efa fljót að fyllast.

Á seinni stigum væri mögulegt að stefna að uppsetningu frumgerðasmiðju (t.d. Fablab) í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð, Frumbjörg eða aðra sambærilega aðila.

Ekki ætti að þurfa miklar breytingar á þessu rými til að komast í gagnið sem fyrst.

Þriðja hæð – ris 397 m²

Efsta hæð hússins samanstendur af frekar litlum skrifstofum, fyrrum vistarverum systranna og einum rúmlega 50 m² sal. Lagt er til að skrifstofurnar verði nýttar fyrir fjölbreytta meðferðaraðila sem þurfa helst pláss fyrir samtal, t.d. sálfræðinga, félagsráðgjafa og aðra ráðgjafa á heilbrigðissviði. Stærri skrifstofur gætu nýst fyrir sérfræðinga í endurhæfingu, t.d. sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa. Salurinn myndi vel nýtast fyrir létta leikfimi og/eða fyrirlestra. Salurinn myndi nýtast þeim sem starfsemi hafa í húsinu og mögulega öðrum eins og kapellan.

Lesa má skýrsluna í heild hér.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2