Hjá Bókaútgáfunni Hólum var að koma út bókin Segir mamma þín það? eftir Guðjón Inga Eiríksson. Hún inniheldur gamansögur úr skólum, vítt og breitt um landið, og auðvitað koma Hafnfirðingar þar við sögu:
Nektarskynjari virkur
„Þegar Einar Birgir Steinþórsson var skólameistari Flensborgarskóla, en því starfi gegndi hann frá 1998 til 2013, var sett inn á tölvukerfi Hafnarfjarðarbæjar tilraunaútgáfa af Java-forrituðu reikniriti í algoryðma, sem átti að finna sjálfkrafa út hvort að ljósmyndir, sem settar væru inn á vefi bæjarins, innihéldu nekt.
Áður en umrætt forrit var tekið allsnarlega úr notkun, biluðust starfsmenn tölvudeildar bæjarins hins vegar úr hlátri, þegar andlitsmynd af Einari Birgi birtist ekki, en í staðinn kom eftirfarandi texti:
„Picture content not displayed on page, nudity detector activated!“
Eða: „Myndin er ekki birt á síðunni, nektarskynjari virkur!“
Áttu eld?
Það getur stundum verið þægilegt að búa nálægt vinnustað sínum, en vitanlega geta því einnig fylgt ókostir, eins og Guðmundur heitinn Sveinsson, kennari í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði, fékk að reyna. Þannig vildi til að eina nóttina var hann vakinn upp af fastasvefni þegar bankað var þéttingsfast í svefnherbergisglugga hans og það nokkrum sinnum. Honum var eðlilega mjög brugðið og eins og í leiðslu rauk hann út að glugganum. Þar fyrir utan sá hann nemanda sinn, kröftugan pilt úr unglingadeildinni, og hélt strax að eitthvað alvarlegt byggi á bak við þessa óvæntu „heimsókn“.
Svo reyndist þó ekki vera, því um leið og Guðmundur rak hausinn út um gluggann og spurði hvað væri að, stakk stráksi upp í sig sígarettu og svaraði nautnalega: „Áttu eld?“
Síðan í gær
Ingvar Viktorsson kenndi um árabil í Hafnarfirði, fyrst við Flensborgarskóla, síðan Víðistaðaskóla og svo Setbergsskóla. Þá starfaði hann mikið og lengi fyrir FH og ýmis félagasamtök, auk þess að vera á kafi í bæjarpólitíkinni fyrir Alþýðuflokkinn, en hann sat lengi undir merki flokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og var um tíma bæjarstjóri þar, eða frá 1992 til 1998. Ingvar kom því víða við í bæjarfélaginu og sumir töldu að vegna þess vissi hann nánast deili á hverjum einasta Hafnfirðingi. Það var líklega ekki fjarri lagi.
Eitt sinn, fyrir bæjarstjórnarkosningar, voru þeir félagarnir, Ingvar og Guðmundur Árni Stefánsson, að dreifa kratabæklingum fyrir utan Fjarðarkaup. Í því kemur þar að ung kona með barn á handlegg og Guðmundur Árni segir við Ingvar: „Látum hana fá bækling.“
„Hún er ekki úr Hafnarfirði,“ fullyrðir Ingvar og vill greinilega ekki spandera bæklingi að óþörfu.
„Gerum það samt,“ segir Guðmundur Árni og Ingvar lætur til leiðast.
Eftir að Guðmundur Árni hafði rétt konunni bæklinginn stóðst Ingvar ekki mátið og spurði hana: „Býrð þú í Hafnarfirði?“
„Já,“ svaraði konan.
Ingvar verður nú steinhissa á sjálfum sér, að kannast ekki við konuna fyrst hún búi í Hafnarfirði, og spyr því næst: „Hefurðu búið hérna lengi?“
Svarið kom um hæl: „Síðan í gær.“
Þversögn
Hugtakið þversögn hafði mismunandi merkingu hjá nemendum í Flensborgarskóla og fékk eitt árið meðal annars þessar „útskýringar“:
- Þversögn er sögn sem hefur margar merkingar og getur þýtt ýmsa hluti, t.d. sími – gemsi.
- Þversögn er sögn sem er þver í sínum málum.
- Það er þegar ein sögn fer þvert á aðra.
- Þversögn er sögn fyrir þvert fólk sem hugsar bara um sjálft sig.
- Það er sögn sem liggur þvert niður textann.
- Það er sögn sem málið snýst um.
- Hún er þvert á móti einhverju öðru.
- Þversögn er það þegar fyrsta línan er endurtekin í lokin.



