fbpx
Laugardagur, desember 2, 2023
HeimFréttirMenning og mannlífHeill hafsjór af dagskrá fyrir börn og ungmenni

Heill hafsjór af dagskrá fyrir börn og ungmenni

Viðtal við Stellu B. Kristinsdóttur, fagstjóra frístundastarfs hjá Hafnarfjarðarbæ

Stella B. Kristinsdóttir er fagstjóri frístundastarfs hjá Hafnarfjarðarbæ og vinnur hún m.a. náið með frístunda­heimilum og félagsmiðstöðvum sem starfandi eru við alla grunnskóla í Hafnarfirði. Hún er ein þeirra sem heldur utan um skipulagningu á fjöl­breyttu og skapandi sumarstarfi á vegum tómstundamiðstöðva í bænum. Þátttaka í skipulögðu starfi ýtir bæði undir vellíðan og félagslega færni. Nær þetta bæði til starfs á vegum sveitar­félagsins og til fagstarfs og námskeiða allra félaganna í bænum.

Uppbyggileg sumarfrístund í öllum frístundaheimilum

„Líkt og áður þá munum við bjóða upp á sumarfrístund fyrir 7-9 ára á vegum frístundaheimilanna. Námskeið verða í boði í öllum frístundaheimilum frá 14. júní til 2. júlí og aftur 4. – 23. ágúst sem er breyting frá því sem áður var en þá voru í boði tvö miðlæg námskeið á seinna tímabili fram að skólabyrjun. Dagana 5. júlí – 3. ágúst verður í boði miðlægt námskeið í Krakkabergi í Setbergsskóla þannig að það er eitthvað í boði á vegum frí­stundaheimilanna í allt sumar,“ segir Stella. Sumarfrístund inniheldur fjöl­breytta dagskrá sem samanstendur af skapandi verkefnum, leikjum, hreyf­ingu, spennandi ferðum, dorgveiði, sundferðum og sameiginlegum við­burðum. „Dagskrá getur verið breyti­leg eftir því hvaða frístundaheimili er valið og því um að gera að kynna sér dagskrána vel og jafnvel breyta til. Frístundaheimilin bjóða einnig uppá sumarfrístund fyrir útskriftarhópa leik­skólanna í ágúst þar sem nýir nemendur fá tækifæri til að kynnast skólanum sínum, sínu frístundaheimili og nær­umhverfi skólans með það að leiðarljósi að auka öryggi þeirra og vellíðan við upphaf skólagöngu“.

Teiknað, málað og mótað

Hafnarborg, menningar- og lista­miðstöð, verður með myndlistar­námskeið fyrir börn á aldrinum 6-12 ára þar sem undirstöðuatriði myndlistar eru kynnt í gegnum rannsóknir á um­hverfinu, sýningar í safninu og skapandi vinnu. Unnin verða verkefni í fjölbreytta miðla – teiknað, málað og mótað – með það að markmiði að þjálfa sjónræna athygli, örva skapandi hugsun og persónulega tjáningu barn­anna.

Allt frá tónlistarsmiðju í tilraunaeldhús

Félagsmiðstöðvarnar í Hafnarfirði halda úti námskeiðum í júní fyrir börn sem voru að ljúka 4. – 7. bekk með það fyrir augum að viðhalda virkni þeirra í sumarfríinu, gefa þeim tækifæri á að hitta önnur börn og hafa áhugaverðar smiðjur til að sækja. Námskeiðin verða haldin í Lækjarskóla og Hvaleyrarskóla. „Hægt er að sækja mismunandi smiðjur, allt frá tónlistarsmiðju í tilraunaeldhús og geta börnin mætt eins oft og þegar þeim hentar í tvær vikur í senn. Námskeiðin hafa ekki verið aldursskipt en til skoðunar er að bjóða upp á sér námskeið fyrir 7. bekk til tilrauna í tvær vikur,“ segir Stella. Börnum í 4. til 7. bekk með sértæka stuðningsþörf stendur til boða að sækja Sumarklettinn þar sem unnið er með styrkleika og þarfir hvers og eins.

Öll virkni og samvera skiptir máli

„Það skiptir miklu máli fyrir börn okkar og ungmenni að viðhalda ein­hverri virkni og félagsstarfi yfir sumar­tímann líkt og allt árið um kring og þá ekki síst þegar foreldrar og forráða­menn eru sjálfir í vinnu. Hafnar­fjarðar­bær, stofnanir, samtök og íþróttafélög í Hafnarfirði eru með fjölbreytt starf í gangi allt árið þannig að allir ættu að geta fundið ástundun við hæfi. Í fyrra og í ár höfum við í gegnum sumarstörf fyrir námsmenn búið til nýsköpunarstörf þar sem við reynum að auka aðgengi að tómstundum yfir sumartímann. Verk­efnið hefur gengið út á það að draga úr einangrun yfir sumartímann með því að bjóða persónulega þjónustu og aðstoð við skráningar. Það tók gildi í sumar að hægt er að nota sérstakan styrk fyrir börn sem koma af tekjulægri heimilum á sumarnámskeið og fögnum við því að það sé verið að jafna tækifæri þeirra fjölskyldna til þátttöku í íþróttum eða sumarstarfi. Vinnuskóli Hafnarfjarðar er svo kjörinn vettvangur fyrir ungmenni frá 14 ára aldri. Fastur liður í tilverunni með útiveru og hressandi félagsskap jafnaldra. Með aukinni umhverfishugsun, sjálfbærni og áhuga hefur eftirspurn eftir fjöl­skyldugörðum Hafnarfjarðarbæjar farið vaxandi og er þar um að ræða frábært tækifæri fyrir fjölskyldur og aðra til að rækta sitt eigið grænmeti yfir sumartímann,“ segir Stella sem hvetur að endingu alla til að taka þátt í sumarlestri á vegum Bókasafns Hafn­ar­fjarðar sem lýkur með upp­skeruhátíð í sumarlok.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum, 1. tbl. 19. árg. 26. maí 2021

Fjarðarfréttir – sérblað: Hafnfirsk æska

Fjarðarfréttir 1. tbl. 19. árg. 26. maí 2021. Sérblað um sumarstarf barna og umgmenna í Hafnarfirði.

 

Ummæli

Ummæli

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjustu greinar

H2