Gaflarakórinn – kór eldri borgara í Hafnarfirði 25 ára í ár – afmælistónleikar 2. maí

Gleði og ánægja einkennir kórinn sem er samt metnaðarfullur í flutningi sínum

Gaflarakórinn, kór eldri borgara í Hafnarfirði. Ljósm.: Guðni Gíslason.

Gaflarakórinn – kór eldri borgara í Hafnarfirði fagnar 25 ára afmæli í ár. Vortónleikar verða í Víðistaðakirkju fimmtudaginn 2. maí kl. 20.

Upphaf kórsins

Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir og Guðrún Ásbjörnsdóttir. Ljósm.: Guðni Gíslason.

Upphaf kórsins má rekja til þess að Ragnhildur Guðmundsdóttir, formaður Félags eldri borgara stóð fyrir stofnun sönghóps innan félagsins á haustdögum 1994. Níu félagar voru í hópnum og fékk Ragnhildur Hörð Bragason til að æfa og stjórna þeim. Fljótlega bættust fleiri við og á aðalfundi 1996 hefur kórinn fengið nafn og heitir Gaflarakórinn.

Árið 1995 tók Guðrún Ásbjörnsdóttir við kórnum og stýrði hún honum þar til hún féll frá árið 2005. Þá um vorið hafði Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir komið til starfa með kórnum sem undirleikari og hafði m.a. annars farið í vorferð með kórnum til Vestmannaeyja og leikið undir með kórnum á kóramóti á Selfossi. Hún hefur stjórnað kórnum síðan þá.

Með hagyrðingum

Kórinn hefur ávallt sungið fjórradda en stundum hafa karlaraddirnar fengið að njóta sín einar. Kórinn hefur verið svo heppinn í gegnum tíðina að hafa á að skipa kórfélögum sem bæði eru hagyrðingar og lagaskáld. Má þar nefna Hörð Zóphaníasson, Jón Val Tryggvason, Ólaf Pálsson, Árna Gunnlaugsson, Reyni Guðsteinsson og Þóreyju Valgeirsdóttur.

Í upphafi var Einar Sveinsson formaður kórsins og arftakar hans hafa verið Hildigunnur Sigvaldadóttir (í veikindum Einars), Ragna Pálsdóttir, Óskar Jónsson og núverandi formaður er Kristbjörg Jónsdóttir

Komið fram á skemmtun eldri borgara. Ljósm.: Guðni Gíslason.

Hefur komið víða fram

Kórinn hefur sungið á fjölmörgum stöðum og reglulega er sungið tvisvar á ári á Hrafnistu í Hafnarfirði, í Drafnarhúsinu og á Sólvangi, Höfn og undanfarin tvö ár einnig í Ísafold í Garðabæ. Frá byrjun Syngjandi jóla í Hafnarfirði á aðventu hefur kórinn komið fram í Hafnarborg.

Frá einni af skemmtunum kórsins. Ljósm.: Guðni Gíslason.

Ýmislegt hefur á daga kórsins drifið og má lesa nánar um sögu kórsins frá upphafi til 2007 í bókinni Dýrmæt ár – fjörutíu ára saga Félags eldri borgara í Hafnarfirði. Oft er stefnan tekin í önnur sveitarfélög og hjúkrunarheimili eða dvalarheimili aldraðra þá heimsótt. Fyrir tveimur árum var m.a. stefnan tekin austur fyrir fjall og eftir viðkomu í Vík í Mýrdal, þar sem Syngjandi, kór eldri borgara tók á móti hópnum með rjúkandi heitri súpu, var ferðinni heitið á Kirkjubæjarklaustur þar sem haldnir voru tónleikar ásamt Gleðigjöfum, kór eldri borgara á Höfn í Hornafirði og kórnum úr Vík. Síðan var slegið upp veislu um kvöldið.

Frá skemmtun kórsins. Ljósm.: Guðni Gíslason.

Félagsstarf innan kórsins er mikilvægt og hefur verið farið í nokkrar vor- eða haustferðir og þá sungið á þeim stöðum sem farið er til og endað með gleðskap.

Félagar í kórnum nú eru 43 og hafa margir nýir félagar bæst í hópinn á þessu starfsári og ber að fagna því.

Kóramót í Hafnarfirði

Á hverju ári síðan 1997 í Keflavík hefur kórinn tekið þátt í kóramóti fimm kóra af suðvesturhorninu. Þetta eru, Eldey í Reykjanesbæ, Gaflarakórinn úr Hafnarfirði, Hljómkórinn frá Akranesi, Hörpukórinn úr Árborg og Vorboðar úr Mosfellsbæ. Mótið er haldið í maí og sér hver kór fimmta hvert ár um mót. Að þessu sinni er það einmitt Gaflarakórinn sem sér um mótið og verður það haldið í Víðistaðakirkju laugardaginn 18. maí næstkomandi. Tónleikar kóranna hefjast kl. 16 og eru allir velkomnir.

Afmælistónleikar fimmtudaginn 2. maí

Afmælistónleikar verða haldnir fimmtudaginn 2. maí kl. 20 í Víðistaðakirkju. Þar mun kórinn syngja lög úr ýmsum áttum, bæði gömul og ný. Yfirskrift tónleikanna er Varpaðu frá þér vetrarkvíða. Á efnisskránni eru meðal annars lög eftir Sigfús Halldórsson, Emil Thoroddsen, Sigvalda S. Kaldalóns, Böðvar Guðmundsson, Magnús Kjartansson, Magnús Eiríksson og fleiri. Garðakórinn úr Garðabæ mun syngja nokkur lög en hann hefur margoft komið fram með kórnum í gegnum árin. Stjórnandi hans er Jóhann Baldvinsson.

Með Gaflarakórnum munu spila í nokkrum lögum þeir Örn Arnarson og Guðmundur Pálsson. Meðleikari kórsins til fjölda ára er Arngerður María Árnadóttir.

Eru bæjarbúar hjartanlega boðnir velkomnir á tónleikana í sumarbyrjun. Aðgangur ókeypis.

Ummæli

Ummæli