Blöðrur, söngur og matarvagnar á Vetrarhátíð í Firði

Vigga og Sjonni heilluðu gesti með tónlistarflutningi sínum í Firði.

Vetrarhátíð hófst í verslunarmiðstöðinni Firði í dag en útsölulok eru jafnfram um helgina.

Söngkonan Vigga og gítarleikarinn Sjonni heilluðu gesti með ljúfri og afar vel fluttri tónlist sem skapaði góða stemningu.

Blaðrarinn töfraði fram listaverk úr blöðrunum sínum og gestir fengu hrein listaverk sem hann gerði.

Hann færði þeim Sigga og Loga eftirmyndir af þeim sjálfum sem þeir voru greinilega hæstánægðir með en þeir voru með beina útsendingu á FM 100,5 frá veitingastaðnum Rifi.

Matarvagnar voru fyrir og buðu upp á fjölbreyttan götumat og verða þeir aftur á morgun kl. 12-14 og 17-19.

Vetrarhátíð stendur yfir til sunnudags og er lögð áhersla á list í almannarými, útilistaverk, menningarmerkingar og ljóslistaverk.

Ljósalist

Flensborgarskólinn og Hamarinn verða upplýstir í einkennislitum Vetrarhátíðar, grænum og fjólublám, og listaverkum úr safneign Hafnarborgar varpað á austurvegg listasafnsins.

Bílabíó

Á morgun, laugardag bjóða Hafnarfjarðarbær og Kvikmyndasafn Íslands í bílabíó á bílastæðinu við Flensborgarskólann. Sýndar verða tvær íslenskar kvikmyndir, Regína kl. 18 og Með allt á hreinu kl. 20. Myndirnar verða sýndar á hágæða 16 m² skjá og verður hljóðinu streymt í útvarpið í bílunum á FM 106,1. Gæsluaðilar verða á staðnum og aðstoða við uppröðun bíla. Allir eru velkomnir meðan pláss leyfir.

Vegna sóttvarnarreglna skulu bíógestir haldi sig innan bíls á meðan sýningu stendur og komi vel nestaðir því engin veitingasala er á staðnum.

Útilistaverk – snjallleiðsögn Hlustað á listaverk

Bókasafn Hafnarfjarðar í samstarfi við Hafnarborg standa fyrir rafrænni samtvinnun forms og hljóðs í kringum útilistaverk miðbæjar Hafnarfjarðar. Gönguleið í miðbænum leiðir fólk á milli valinna útilistaverka sem merkt eru með snjallkóða. Þegar sími er borinn upp að kóðanum birtast upplýsingar um verkið ásamt stuttu innslagi úr bókmenntaheiminum. Það tekur um 40 mínútur að heimsækja öll verkin og hlusta á hvert innslag fyrir sig. Gengið er á malbikaðri jafnsléttu og hentar gangan því öllum áhugasömum ótengt atgerfi og aldri.

Mitt eigið útlistaverk – útilistasmiðja í Hafnarborg

Laugardaginn 6. febrúar kl. 14-16 býður Hafnarborg fjölskyldum að koma og taka þátt í skapandi útilistasmiðju í tilefni af Vetrarhátíð. Áhersla hátíðarinnar í ár eru útilistaverk en í safneign Hafnarborgar eru mörg slík verk sem staðsett eru víða um Hafnarfjörð. Í smiðjunni verður unnið með opinn efnivið og eru þátttakendur hvattir til að gera tilraunir og skapa sitt eigið útilistaverk stór og smá.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here