30 ár frá því Víðistaðakirkja var vígð

Hátíðarguðsþjónusta og kaffisamsæti var haldið í kirkjunni sl. sunnudag

Frá hátíðarmessunni 25. febrúar 2018

Í gær, 28. febrúar 2018, voru 30 ár liðin frá vígslu Víðistaðakirkju í Hafnarfirði. Í tilefni vígsluafmælisins var haldin hátíðarguðsþjónusta í kirkjunni sl. sunnudag. Séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup prédikaði og séra Bragi J. Ingibergsson sóknarprestur þjónaði fyrir altari með aðstoð messuþjóna kirkjunnar. Kór Víðistaðasóknar söng undir stjórn Helgu Þórdísar Guðmundsdóttur organista og var meðal annars frumfluttur nýr sálmur eftir sr. Braga við lag Helgu Þórdísar af þessu tilefni. Eftir guðsþjónustuna var gestum boðið til hátíðar- og veislukaffis í safnaðarsal kirkjunnar.

Vígsla Víðistaðakirkju fór fram 28. febrúar árið 1988 en fyrsta skóflustungan að kirkjunni var tekin sjö árum fyrr eða 23. apríl 1981. Víðistaðasókn varð til 1. janúar árið 1977 og fagnaði því 40 ára afmæli á síðasta ári. Kirkjan var teiknuð af Óla G. H. Þórðarsyni arkitekt og eiginkonu hans Lovisu Christiansen innanhússarkitekt. Víðistaðakirkja er einna helst þekkt fyrir fallegar og áhrifamiklar freskumyndir sem prýða veggi hennar og gerðar voru af listamanninum Baltasar Samper út frá sæluboðum Krists í Fjallræðunni. Kirkjan er fallegt hús sem setur svip sinn á umhverfið í sókninni og hefur öðlast fastan sess í hugum Hafnfirðingar.

Sjálfboðaliðar lyftu grettistaki

Hjörleifur Þórarinsson, sóknarnefndarformaður

Hjörleifur Þórarinsson, sóknarnefndarformaður Víðistaðakirkju, sagði í ávarpi í hátíðarguðsþjónustunni að sóknin stæði í mikilli þakkarskuld við allt það góða fólk sem ruddi brautina í safnaðarstarfinu og skóp þá umgjörð sem kirkjan býr við í dag. Sjálfboðaliðar sem störfuðu á fyrstu árum sóknarinnar hefðu lyft grettistaki við byggingu Víðistaðakirkju. Nefndi hann sérstaklega séra Sigurð Helga Guðmundsson sóknarprest og Einar Sveinsson sem var formaður sóknarnefndar á byggingatíma kirkjunnar. Hann sagði að sóknarnefnd og byggingarnefnd hafi fengið dyggan stuðning frá bæjarráði Hafnarfjarðar, Jöfnunarsjóði sókna Þjóðkirkjunnar og frá fyrirtækjum og einstaklingum og að enn þann dag í dag sé kirkjan að njóta stuðnings þessara aðila.

Systrafélagið gaf eina milljón króna

Systrafélag Víðistaðakirkju gaf kirkjunni veglega peningagjöf í tilefni af vígsluafmælinu og var gjöfin, ein milljón króna, formlega afhent í hátíðarguðsþjónustunni á sunnudaginn. Allt frá árinu 1980 hefur Systrafélagið styrkt kirkjuna og safnaðarstarfið rausnarlega með peningagjöfum og með aðstoð við fermingarundirbúning og fleira. Peningarnir hafa m.a. verið notaðir til kaupa á innviðum og búnaði kirkjunnar og safnaðarsals. Systrafélagið gaf á sínum tíma vinnulaun Baltasars við gerð freskumyndanna í kirkjunni.

Gjöf frá Hafnarfjarðarsókn

Við athöfnina barst kveðja og 250 þúsund kr. peningagjöf frá Hafnarfjarðarsókn en gjöfinni er ætlað að nýtast við viðgerð á freskumyndunum.

Gjaldkeri í 41 ár

Hjörleifur Þórarinsson, sóknarnefndarformaður og Gunnar Hólmsteinsson gjaldkeri

Gunnar Hólmsteinsson var heiðraður í lok guðsþjónustunnar fyrir fórnfúst og gott starf á vettvangi Víðistaðakirkju. Gunnar var kjörinn í fyrstu sóknarnefnd kirkjunnar og skipaður gjaldkeri hennar. Því hlutverki hefur hann gengt alla tíð síðan eða í 41 ár. Segir Hjörleifur sóknarnefndarformaður tryggð hans, árvekni og umhyggja fyrir velferð safnaðarins vera einstaka en minntist einnig fleiri sem hafa verið starfandi lengi við kirkjuna.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here