fbpx
Miðvikudagur, apríl 24, 2024
HeimFréttirMæðgur forsetar í hafnfirskum Rótarýklúbbum

Mæðgur forsetar í hafnfirskum Rótarýklúbbum

Rósa og Kolbrún eru stoltir rótarýfélagar

Í Hafnarfirði eru starfandi tveir rótarýklúbbar, Rótarýklúbbur Hafnar­fjarðar sem var stofnaður 1946 og Rótarýklúbburinn Straumur sem var stofnaður 1997 sem þá var jafnt skip­aður konum sem körlum. Fyrsta konan gekk í Rótarýklúbb Hafnarfjarðar árið 1998.

Forsetar klúbba eru kjörnir til eins árs í Rótarý og þegar nýtt starfsár Rótarý hófst, 1. júlí sl. kom í ljós að þær konur sem tóku við embætti í Hafnar­fjarðarklúbbunum voru mæðgur. Rósa Kristjánsdóttir djákni tók við embætti í Rótarýklúbbnum Straumi og dóttir hennar, Kolbrún Benediktsdóttir vara­héraðssaksóknari tók við embætti í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar.

Kolbrún Benedikstdóttir tók á móti umdæmisstjóra Rótarý í sínum klúbbi. – Ljósm.: Sigurjón Pétursson.

Kolbrún gekk til liðs við Rórarý sumarið 2017. „Mér finnst félagsskap­urinn mjög skemmtilegur. Við fáum fjölbreytta gesti á fundi og ég hef því fræðst um allt milli himins og jarðar. Síðast en ekki síst er gott að geta látið gott af sér leiða,“ segir Kolbrún í viðtali við Fjarðarfréttir

Hún segir það mjög gaman að þær mæðgur séu forsetar í rótarýklúbbunum í Hafnarfirði. „Við spjöllum oft um Rótarý og hvað klúbbarnir okkar eru að gera. Við gefum hvorri annarri ábend­ingar um góða og skemmtilega fyrirlestra og svo styðjum við hvor aðra.“

Rósa Kristjánsdóttir ásamt umdæmisstjóra og nokkrum félögum sínum í Straumi. – Ljósm.: Guðni Gíslason.

Rósa gekk einnig til til við liðs við Rótarý árið 2017, þó aðeins fyrr en dóttirin. Segir hún klúbbinn áhugavert samfélag sem felst í að við erum með frábæra fyrirlestra sem auðga víðsýni og þekkingu. „Við erum svo með klúbb­fundi inn á milli þar sem við ræð­um okkar mál og tillögur um starfið. Í stóra samhenginu er Polioverkefnið (Baráttu Rótarý gegn lömunarveiki) sem, miðað við nýjustu fréttir, þarf að halda vakandi og vera með samfélags­legan stuðning af ýmsu tagi. Þá erum við í Straumi vonandi að fara af stað með skógræktarverkefni í samvinnu við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar.“

Aðspurð segir hún það skemmtilega tilviljun að þær séu forsetar á sama tíma. „Við eigum samtal um verkefni og nýtum okkar sameiginleg tengslanet í öflun fræðslu á þeim fundum sem stjórnin ber ábyrgð á. Við viljum gjarn­an efla samstarf klúbbanna og gaman væri að hittast öðru hvoru,“ segir Rósa í viðtali við Fjarðarfréttir.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2