Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði umfangsmikla kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði í síðustu viku og lagði hald á verulegt magn af fíkniefnum. Fann lögreglan rúmlega 1.100 kannabisplöntur sem voru á tveimur stöðum í húsinu. Segir lögreglan að ræktunin hafi verið mjög fullkomin og búnaðurinn eftir því.
Á sama stað var einnig lagt hald á hálft kíló af kannabisefnum sem var tilbúið til dreifingar/neyslu. Húsráðandi, karl á fertugsaldri, var handtekinn í þágu rannsóknarinnar og játaði hann aðild sína að málinu, sem telst upplýst. Í fórum mannsins fannst einnig efni sem talið var vera amfetamín.
5 kg af marjúana í fjölbýlishúsi
Þá fann lögreglan um 5 kg af marijúana í óskyldu máli í fjölbýlishúsi í bænum. Fíkniefnin voru tilbúin til dreifingar/neyslu. Húsráðandi, karl á þrítugsaldri, var handtekinn í þágu rannsóknarinnar og játaði hann aðild sína að málinu sem einnig telst upplýst.