Ljósmynd dagsins – Strandgatan

Strandgatan við Íshús Hafnarfjarðar 1976 eftir að skipt hafði verið um jarðveg en áður en hún var malbikuð. - Ljósmynd: Guðni Gíslason.

Lengi vel voru flestar götur í Hafnarfirði malargötur. Strandgatan var lögð steyptu slitlagi á stríðsárunum en svo var það ekki fyrr en 1954-55 sem fleiri götur voru lagðar bundnu slitlagi; Reykjavíkurvegur frá Skúlaskeiði að Hraunhvammi (brekkan var áfram malargata), Vesturgata að Merkurgötu og Strandgata frá brúnni á Hamarskotslæk að Dröfn.

Á árunum 1961-62 var steypt slitlag á Skúlaskeið og Vesturgötu að Vesturbraut en þá var búið að byggja húsnæði Bæjarútgerðarinnar og gamla Edinborgarhúsið (síðar skátaheimili) fært úr götustæðinu. Hverfisgatan var malbikuð 1962 og til 1966 voru Arnarhraun, Reykjavíkurvegur og nýja Fjarðargata malbikuð. Árið 1969 var svo hafist handa á ný og þá tók við miklar endurbætur í fráveitumálum og þegar hafist var handa við lagningu hitaveitu í bænum árið 1974 voru fjölmargar götur endurnýjaðar og lagðar bundnu slitlagi.

Mynd dagsins er tekin 1975 eða 1976 en síðla árs 1974 var hafist handa við að skipta um jarðveg í götunni. Var þetta mikil vinna enda djúpt niður á fast. Myndin sýnir dæmigerða malargötu þegar verst lét en oft voru þær skornar eftir leysingar og rigningar, t.d. Reykjavíkurvegurinn sem oft var mjög illa farinn. Gatan var svo lögð bundnu slitlagi síðla árs 1976.

Íshús Hafnarfjarðar var þá í fullum rekstri og fiskvinnsla mikil í bænum.

Myndina tók Guðni Gíslason.

Heimild: Saga Hafnarfjarðar eftir Ásgeir Guðmundsson.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here