Ljóðakaffiboð, persónulegur ljóðalestur í heimahúsi

Sunnudag, 1. desember kl. 14-17 að Sunnuvegi 11

Eyrún Ósk Jónsdóttir

Hafnfirska skáldið Eyrún Ósk Jóns­dóttir sendi nýverið frá sér ljóðabókina Mamma má ég segja þér? og hefur hún verið á meðal mest seldra ljóðabóka í bókabúðum síðan hún kom út. Þetta er tíunda bókin hennar en hún hefur áður sent frá sér ljóðabækur, unglingabækur og myndskreytta barnabók.

„Þessi bók fjallar um friðarmál, ást og kærleika. Friðarmálin hafa lengi átt stað í hjarta mínu en ég hef starfað með samstarfshópi íslenskra friðarhreyfinga og verið í undirbúningshópi fyrir frið­ar­­göngunni á Þorláksmessu og kerta­fleytinguna á tjörninni í minningu Hiro­shima og Nagasaki í um 20 ár.

Hugmyndin að efni bókarinnar kvikn­aði fyrir um einu og hálfu ári síð­an, þegar mér datt í hug að semja og flytja ljóðagjörning um frið og kærleika á alþjóða friðardeginum í Fríkirkju Hafnarfjarðar. Ég fór að velta fyrir mér hvort það væri nokkuð meira ögrandi í dag en einmitt að tala á einlægan hátt um kærleikann? Ég fann sjálf að ég þurfti ákveðið hugrekki til að opna hjartað mitt upp á gátt og tala að einlægni um ástina. Maður er oft svo hræddur um að vera of væminn eða ekki nógu töff. En þarna gerði ég mér grein fyrir hversu ögrandi einlægni og kærleikur eru í heimi þar sem haturs­orðræða og öfgahyggja fer vaxandi. Ég fékk gríðarlega góð viðbrögð við gjörningnum og verkefnið óx í hönd­unum á mér. Ég var beðin um að flytja verkið víða hér heima en einnig á lista­hátíð í Finnlandi. Það bættust alltaf fleiri og fleiri ljóð í safnið og nú eru þau komin út í þessari bók,“ segir Eyrún.

Bókin heitir eftir einu ljóðinu, Mamma má ég segja þér? en fyrir það fékk Eyrún einmitt sérstaka viður­kenningu í ljóðakeppni um Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrr á árinu.

Ég er á fullu að kynna og lesa upp úr bókinni og skipuleggja alls konar upplestra út um allt, en ég á alveg eftir að prófa að lesa úr bókinni heima í stofu, þannig að næsta sunnudag 1. desember á milli kl. 14 og 17 ætla ég að bæta úr því halda ljóðakaffiboð heima á Sunnuvegi 11, neðri hæð, og bjóða upp á kaffi og með því og lesa persónulega fyrir þá sem banka upp á. Það er hægt að mæta hvenær sem er á milli 14 og 17 og fá ljóðalestur og kaffibolla. Maðurinn minn ætlar að standa vaktina á kaffivélinni og vöfflu­járninu. Allir velkomnir, vinir og vinir sem við eigum eftir að kynnast,“ segir Eyrún að lokum.

Grasblautir strigaskór
í hlæjandi dagrenningu

krían árvökul
barnið leggst
í blóðbergið

lyngið ilmar
af kærleika
og sól.