fbpx
Miðvikudagur, febrúar 28, 2024
HeimFréttirKrefur Hafnarfjarðarbæ um 247 milljónir kr.

Krefur Hafnarfjarðarbæ um 247 milljónir kr.

ÞG verktakar stefna Hafnarfjarðarbæ vegna alútboðs á Knatthúsi í Kaplakrika

ÞG verktakar hafa stefnt Hafnarfjarðarbæ til að greiða 247.492.280 kr. með vöxtum

Hafnarfjarðarbær bauð út í febrúar 2018 hönnun og byggingu knatthúss í Kaplakrika og í jarðvinnu og uppsteypu stoðveggja. Bárust þrjú gild tilboð í verkið og var tilboð ÞG verktaka lægst þegar tilboð voru opnuð 26. mars 2018. Þann 3. maí sama ár var bjóðendum sendur tölvupóstur þar sem þeim var tilkynnt að ákveðið hafi verið að hafna öllum tilboðum þar sem heildarkostnaður sem lagður var til grundvallar við undirbúning verksins hafi verið 700-750 milljónir kr. og í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar væri miðað við 720 milljónir kr. Tilboðin þrjú hljóðuðu upp á 1.102 til 1.154 milljónir kr.

Í framhaldi óskaði stefnandi eftir upplýsingum um forsendur fjárhagsáætlunar og afrit af kostnaðaráætlun Hafnarfjarðarbæjar vegna verksins. Í svarbréfi kom fram að FH hafði óskað eftir 570 millj. kr. framlagi til byggingar knatthúss. Vinnuhópur bæjarráðs hafði unnið alls 9 tillögur , þ.á.m. tillögu um knatthús án upphitunar. Skv. þeirri tillögu hafi verið gert ráð fyrir að kostnaður við hana væri á bilinu 700-750 millj. kr. og kom fram að byggt hafði verið á reynslutölum frá FH sem byggt hafði álíka hús, helmingi minna, og var tekið í notkun 2005. Hafnarfjarðarbær hafði ekki í höndum sundurliðaða kostnaðaráætlun og áður hefur komið fram í Fjarðarfréttum að eftir að pólitísk ákvörðun hafði verið tekin um verkið þótti ekki ástæða að gera kostnaðaráætlun sem venjulega er gerð áður en slíkar ákvarðanir eru gerðar.

Kærunefnd útboðsmála komst að því í úrskurði sínum 9. nóvember 2019 að höfnun Hafnarfjarðarbæjar á tilboði stefnanda hafi verið ólögmæt og var kveðið á um skaðabótaskyldu stefnda.

Hafnarfjarðarbær og ÞG verktaka komu sér ekki saman um greiðslu skaðabóta, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Í kröfugerð er sagt að forsenda þess að verkkaupi geti tekið ákvörðun um höfnun allra tilboða sé sú að hann hafi áður aflað sér nauðsynlegra upplýsinga og gagna til þess að honum sé stætt á að leggja fram rökstutt mat á fram komin tilboð. Ekkert slíkt mat hafi farið fram enda aðeins stutt við kostnaðarmat FH.

Málið verður þingfest 2. september nk. í Héraðsdómi Reykjaness.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2