fbpx
Föstudagur, febrúar 23, 2024
HeimFréttirKennarar og starfsfólk Flensborgarskólans mótmælir hugmyndum um sameiningu

Kennarar og starfsfólk Flensborgarskólans mótmælir hugmyndum um sameiningu

Kennarafélag Flensborgarskólans og annað starfsfólk mótmælir hugmyndum um sameiningu Flensborgarskólans og Tækniskólans.

Hefur starfsfólkið sent frá sér tilkynningu þar sem minnt er á 140 ára sögu skólans, sérstöðu hans og alvarleg athugasemd er gerð við tímasetningu fýsileikakönnunar á sameiningu skólanna.

Ályktunin í heild

Á þeim ríflega 140 árum sem liðin eru frá stofnun Flensborgarskólans sem alþýðu- og gagnfræðaskóla árið 1882 hefur hann skipað merkilegan sess í skólasögu Íslands. Skólinn var fyrsti skólinn á Íslandi til að mennta kennara og annar af tveimur fyrstu gagnfræðaskólum landsins. Frá árinu 1937 hefur skólinn verið staðsettur á Hamrinum í Hafnarfirði og er eitt af kennileitum bæjarins ásamt því að vera samofinn sögu Hafnarfjarðar og sterkur hluti af sjálfsmynd fjölmargra Hafnfirðinga.

Skólinn hefur alla tíð leitast við að veita sem fjölbreyttustum hópi nemenda tækifæri til náms. Íþróttaafrekssvið skólans er vel þekkt en sérstaða þess er að nemendur fá mikla eftirfylgni og stuðning. Starfsbraut hefur lengi verið starfrækt við skólann og er þar komið til móts við nemendur með fatlanir eða sértæka námserfiðleika. Í menntastefnu barna- og menntamálaráðuneytis til ársins 2030 segir „Skólar og aðrar menntastofnanir taki mið af þörfum, getu og hæfni sérhvers nemanda og vinni út frá styrkleikum og áhuga hvers og eins. Samfélaginu ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja öllum tækifæri til þess að þroskast og dafna á eigin forsendum innan menntakerfisins. Mikilvægt er að tryggja að allir finni sig í menntakerfinu og að stuðlað sé að jafnrétti innan þess.“

Með sameiningu framhaldsskóla er unnið gegn þessum markmiðum með því að fækka valkostum nemenda og gera skólana einsleitari. Ólíklegt verður að teljast að nemendur sem sækjast eftir sterku bóknámi í Flensborgarskólanum með stefnuna á frekara háskólanám muni frekar velja starfsnám í sameinuðum skóla.

Við skólann starfar metnaðarfullur og fjölbreyttur hópur starfsfólks sem lætur sig varða um nemendur skólans. Nemendaþjónustan er öflug og starfar í anda farsældarlaganna frá árinu 2021. Í menntastefnu stjórnvalda kemur m.a. fram „Mikilvægt er að fylgjast með líðan allra nemenda og bregðast skjótt við með viðeigandi aðgerðum í góðri samvinnu heimila, skóla og annarra fagaðila þegar vísbendingar koma fram um vanlíðan nemenda eða ofbeldi af einhverju tagi.“ Hætta er á að einstaklingsbundin þjónusta við nemendur skerðist í jafn stórum skóla eins og þeim sem yrði til við sameiningu skólanna tveggja.

Við gagnrýnum tímasetningu og tímaramma fýsileikakönnunarinnar. Tímasetningin er einkar óheppileg í ljósi þess að lok skólaársins er álagstími í skólum. Framundan eru síðustu dagar kennslu, prófatímabil er skammt undan og innritun nýrra nemenda stendur yfir. Tíminn sem gefinn er til könnunarinnar er afar stuttur en þegar teknar eru stórar ákvarðanir um framtíð skóla er mikilvægt að vandað sé til verka. Gerðar eru athugasemdir við að Flensborgarskólinn hafi ekki átt aðkomu að skýrslu verkefnisstjórnar um nýtt húsnæði Tækniskólans þar sem hugmyndin að sameiningu skólanna var fyrst kynnt.

 

Stýrihópur kanni fýsileika þess að sameina m.a. Flensborgarskólann og Tækniskólann

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2