fbpx
Miðvikudagur, febrúar 21, 2024
HeimFréttirKaratedeild Hauka fagnaði 30 ára afmæli sínu

Karatedeild Hauka fagnaði 30 ára afmæli sínu

Tólf ungir piltar gengu fimmtudaginn 1. febrúar árið 1990 á fund aðalstjórnar Knattsprnufélagsins Hauka. Tilefnið var stofnun karatedeildar innan félagsins, Karatedeildar Hauka.

Karatefélag Hafnarfjarðar var upphafið

Hinir ungu karatemenn Hauka höfðu iðkað íþrótt sína undanfarin tvö ár undir nafni Karatefélags Hafnarfjarðar, sem var við stofnun deildarinnar lagt niður. Hafði það verið stofnað haustið 1988. Ástæðan fyrir því að þeir gengu í raðir Hauka var sú, að kerfið var þeim fjandsamlegt og það voru of mörg ljón á vegi þeirra við rekstur félagsins. Haft var eftir Stefáni Páli Jónssyni, þáverandi formanni Karatefélags Hafnarfjarðar í byrjun árs 1989 að félagið hefur sótt um inngöngu í íþróttabandalag Hafnarfjarðar en ekki fengið svar. Þá sagði hann ennfremur að hið nýja félag hefði sótt um niðurfellingu leigugjalds af notkun íþróttahússins til bæjarráðs en því hefði verið hafnað.

Þeir töldu því hag sínum best borgið með því að ganga í annað félag í Hafnarfirði. Haukarnir voru þeir einu sem treystu sér til þess að taka við þeim. Þeir fengu þá æfinga- og félagsaðstöðu í Haukahúsinu og tók Karatedeild Hauka strax þátttöku í Íslandsmóti unglinga, sem haldið var í byrjun febrúar það ár.

Í fyrstu stjórn Karatedeildar Hauka voru kjörnir Karl Viggó Vigfússon formaður, Birgir Sævarsson, Elvar Örn Kjartansson, Gunnlaugur Sigurðsson, Jóhann Óskar Heimisson, Bjarni Hrafnkelsson og Sigurður Már Dagsson.

Afmæli fagnað

30 ára afmæli deildarinnar var fagnað í gær með sameiginlegri æfingu allra aldurshópa þar sem eldri félagar mættu einnig og rifjuðu upp gamla takta.

Valgerður Sigurðardóttir varaformaður Hauka og Kristján Ó. Davíðsson, formaður Karatedeildar Hauka.

Því næst flutti formaður deildarinnar, Kristján Ó. Davíðsson stutt ávarp en einnig fór í púltið, Valgerður Sigurðardóttir, varaformaður Hauka og þakkaði hið góða starf deildarinnar og sagðist vona að hægt væri að útvega deildinni varanlegt húsnæði. Færði hún deildinni skjöld með afmæliskveðju frá aðalstjórn Hauka.

Unga fólkið lét ekki bjóða sér tvisvar að bragða á afmæliskökkunni.

Að sjálfsögðu var boðið upp á afmælisköku og nutu hinir ungu og eldri stundarinnar við spjall og upprifjanir úr starfi félagsins.

Fleiri myndir verða settir í myndaalbúmið hér að neðan á morgun, mánudag.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2