Í síðustu viku tók Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála út aðstæður í Gráhelluhraunsskógi vegna kæru Hestamannfélagsins Sörla sem kærði deiliskipulag svæðisins.
Deilan stendur um tengingar gangandi vegfarenda inn í Gráhelluhraunsskóg og þá sérstaklega sunnan megin.
Úrskurðarnefndin er þó einungis að skoða hvort eigi að breyta göngustíg í reiðstíg á skipulagi.
Leggur Sörli til að lokað verði fyrir umferð gangandi til suðurs í átt að athafnasvæði Sörla. Er það ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins sem gerir ráð fyrir umferð gangandi í gegnum Gráhelluhraunsskógi sem hluta af tengingu byggðar við uppland bæjarins.
Í fundargerð skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 27. ágúst 2019 má lesa þetta:
„Tekið fyrir að nýju erindi dags. 10.4.2019 frá Hestamannafélaginu Sörla þar sem óskað er eftir að göngustígur í Gráhelluhrauni verði aflagður og að leiðin verði skilgreind sem reiðleið í staðinn. Umhverfis- og framkvæmdaráð synjaði erindinu 2.5.2019 á grundvelli þess að umræddur göngustígur er skv. Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2015-2030. 19.6.2019 er erindið tekið fyrir að nýju og vísaði til afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs sem frestaði afgreiðslu málsins á fundi sínum þann 2.7.2019.
Skipulags- og byggingarráð synjar erindinu á grundvelli þess að umræddur göngustígur er skv. Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2015-2030 og gildandi deiliskipulagi.“
Töluverðar umræður hafa verið um þessa afstöðu hestamanna sem hafa gengið svo langt að fullyrða að gangandi megi ekki fara um reiðastíga sem að mestu eru gerðir fyrir almannafá. Sú fullyrðing stenst engin lög en fáir göngustígar og slóðar eru í bæjarlandinu þar sem einhverjir hestamenn hafa farið um.
Reiðstígur er í raun allt í kringum skóginn í Gráhelluhrauni og liggur hann líka meðfram Kaldárselsvegi, rétt við fjölfarinn veginn. Göngustígurinn erum miðjan stíginn frá Lækjarbotnum og upp að svæði Sörla. Þar sameinast stígarnir í einn og liggur að Kaldárselsvegi. Ákveðið hafði verið að breyta þessu og færa tengingu á göngustígnum við Kaldárselsveg þannig að stígarnir lægju ekki saman. Eðlilega hefði göngustígurinn þá þverað reiðstíginn og Kaldárselsveg en því mótmæltu Sörlamenn.
Reiðstígar þvera hins vegar Kaldárselsveg fjórum sinnum á stuttum kafla.
Töluverðar deilur hafa verið um þennan sameiginlega stíg og hefur það svo gengið langt að hestamenn hafa haft í hótunum við útivistarfólk sem þó hefur reynt að taka fullt tillit til hestamanna og stöðvað á meðan hestar fara framhjá.
Úr umferðarlögum: „Reiðstígur: Vegur eða stígur skipulagður af sveitarfélagi sem ætlaður er sérstaklega fyrir umferð reiðmanna á hestum og er merktur þannig.“
Í 31. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Hafnarfjarðarkaupstað segir: „Umferð reiðhesta er bönnuð innan þéttbýlismarka annars staðar en á merktum reiðstígum nema með sérstöku leyfi eða samkvæmt samþykkt sveitarstjórnar.“
Í leiðbeiningum Vegagerðarinnar og Landssambands hestamannafélaga um reiðvegi segir m.a.: „Aðskilnaður hesta og annarrar umferðar er mjög æskilegur en þar sem því verður ekki við komið verður að leggja áherslu á öryggisþátt vegfarenda og tryggja að allir geti verið saman í sátt.“