Hafnarfjarðarliðin Haukar og FH mætast á Ásvöllum í kvöld kl. 19.30 í úrvalsdeild karla. Allt stefnir í eldfjörugan leik eins og nær alltaf þegar þessi tvö lið mætast.
Leikir beggja liða hafa verið mjög sveiflukenndir nú í haust, FH sigraði Hauka örugglega, 31-22 í Hafnarfjarðarmótinu en Haukum gekk vel í Evrópukeppninni og urðu einnig meistarar meistaranna þegar liðið sigraði Val.
Haukar fóru afar illa af stað í Íslandsmótinu, höfðu tapað 4 leikjum í röð áður en liðið vann Akureyri og situr liðið í næst neðsta sæti með aðeins 4 stig eftir 6 leiki.
FH liðið hefur verið nokkuð sveiflukennt, sigur, jafntefli og tap og síðan stórsigur á ÍBV. Þá kom bráðspennandi leikur við Aftureldingu sem liðið tapaði með einu marki en svo tapaði liðið gegn Selfossi. Liðið hefur því aðeins 5 stig eftir 6 leiki og er í 7. sæti deildarinnar.
Hafnfirðingar eru hvattir til að mæta á Ásvelli í kvöld, stemmningin verður örugglega góð.