Hafnfirðingurinn María Mjöll Jónsdóttir tók við stöðu sendiherra Íslands í Frakklandi í byrjun ágúst. Það var svo sl. mánudag sem hún afhenti Emmanuel Macron, forseta Frakklands, trúnaðarbréf í frönsku forsetahöllinni.
„Afhending trúnaðarbréfs er mikilvæg athöfn í upphafi starfs hvers sendiherra á nýrri starfsstöð. Það er fyrst eftir afhendingu trúnaðarbréfs sem sendiherra getur beitt sér formlega sem fulltrúi ríkis. Trúnaðarbréfið er undirritað af forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, og afhent þjóðhöfðingja gistiríkisins,“ segir í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu.
Hún var áður skrifstofustjóri skrifstofu alþjóðapólitískra málefna og stefnumótunar, hefur starfað innan utanríkisþjónustunnar frá árinu 2001. Hún er með BA próf í spænsku með stjórnmálafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í alþjóðastjórnmálahagfræði frá Colombia-háskóla í New York. Á árunum 2007-2015 starfaði María í fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Árið 2016 varð hún deildarstjóri málefna Sameinuðu þjóðanna á alþjóða- og öryggisskrifstofu utanríkisráðuneytisins og deildarstjóri upplýsinga- og greiningardeildar frá árinu 2018. Árið 2020 varð María Mjöll skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu og frá árinu 2022 skrifstofustjóri alþjóðapólitískra málefna og stefnumótunar.
María Mjöll er 46 ára, dóttir Ásthildar Ragnarsdóttur og Jóns Rúnars Halldórssonar.





