fbpx
Sunnudagur, maí 12, 2024
HeimFréttirHafnfirðingarnir Anton Sveinn og Hrafnhildur sundfólk Íslands 2016

Hafnfirðingarnir Anton Sveinn og Hrafnhildur sundfólk Íslands 2016

Hafnfirsku sundmennirnir Anton Sveinn McKee og Hrafnhildur Lúthersdóttir hafa verið útnefnir sundmaður ársins 2016 og sundkona ársins 2016.

Það er Sundsamband Íslands sem útnefndir sundfólk ársins í samræmi við samþykkt stjórnar SSÍ 15. desember 2016 og samþykktir SSÍ um val á sundfólki ársins.

Anton Sveinn McKee er sundmaður ársins 2016

Anton Sveinn McKee
Anton Sveinn McKee

Anton Sveinn McKee er 23 ára sundmaður í Sundfélaginu Ægi.  Hann stundar nú nám í The University of Alabama í Bandaríkjunum og er á styrk þar vegna sundiðkunnar.  Hann nýtur A- styrks Afrekssjóðs ÍSÍ.  Hann hefur á undanförnum árum náð mjög góðum árangri í bringusundi, en var áður langsundsmaður í skriðsundi.

Anton Sveinn stóð sig best allra íslenskra karla í sundi á árinu 2016. Þó hann hafi algerlega sleppt keppni í stuttu brautinni á árinu 2016 þá vegur þátttaka hans og árangur á EM50 í London og Ólympíuleikunum í Ríó það upp. Á EM50 synti hann sig inn í undanúrslita og úrslitariðla og varð áttundi í 200 metra bringusundi og síðan sjöundi í 100 metra bringusundi. Hann varð átjándi í 200 metra bringusundi og þrítugasti og fimmti í 100 metra bringusundi á ÓL.

Hann er sem stendur númer 46 á Heimslista í 200 m bringusundi og númer 75 í 100 m bringusundi í löngu brautinni.

Anton Sveinn afskaplega metnaðarfullur gagnvart sinni íþrótt og hefur náð miklum þroska undanfarin ár.  Hann hefur náð miklum framförum í íþrótt sinni og hefur alla burði til að ná enn lengra. Hann er fyrirmynd í keppni og ástundun hans er í alla staði til fyrirmyndar. Í samskiptum er hann styðjandi og ábyrgðarfullur.

Hrafnhildur Lúthersdóttir er sundkona ársins

Hrafnhildur Lúthersdóttir
Hrafnhildur Lúthersdóttir

Hrafnhildur Lúthersdóttir er 25 ára sundkona í Sundfélagi Hafnarfjarðar. Hún hefur undanfarin ár verið við nám í Bandaríkjunum þar sem hún náði miklum framförum í íþrótt sinni. Hrafnhildur hefur verið á A-styrk Afrekssjóðs ÍSÍ og fengið styrk úr Ólympíusamhjálpinni.

Árið 2016 hefur verið mjög gjöfult fyrir Hrafnhildi í sundíþróttinni. Hún hefur sett 3 Íslandsmet í löngu brautinni og 5 í þeirri stuttu.  Hún komst þrisvar sinnum í undanúrslit í einstaklingsgreinum á Evrópumeistaramótinu í London EM50, synti sig jafnoft inn í úrslitariðla og uppskar verðlaun í öllum þrem greinunum, 2 silfur og 1 brons. Hún fylgdi góðum árangri á EM50 eftir á Ólympíuleikunum þar sem hún fór í tvígang inn i milliriðla og í úrslit í 100 metra bringusundi þar sem hún endaði í 6. sæti. Þess má geta að Hrafnhildur er fyrsta íslenska sundkonan til að tryggja sér sæti í úrslitariðli á Ólympíuleikum.  Nú í desember tók hún svo þátt í HM25 sem fram fór í Kanada.  Hún náði þar í þrígang inn í milliriðla og sett 5 Íslandsmet eins og áður er tæpt á.

Hrafnhildur er sem stendur í 10. sæti á heimslista í 200 metra bringusundi í löngu brautinni og í því 11. á sama lista í 100 metra bringusundi.

Árangur Hrafnhildar árið 2016 er besti árangur íslenskra kvenna í sundi og ef litið er til árangurs Íslendinga á þessum þremur stórmótum, EM50, ÓL og HM25 þá er hann með þeim betri í sundsögu Íslands og þar á Hrafnhildur verulegan hlut að máli.

Hrafnhildur er nú flutt til Íslands á ný og æfir undir handleiðslu Klaus Jürgen Ohk. Hún er jákvæð, kappsöm og mjög einbeitt þegar kemur að íþróttinni. Hún hefur á undanförnum árum þroskast mjög mikið sem afreksíþróttakona, setur sér skýr markmið og fylgir þeim eftir. Í samskiptum er hún gefandi og glaðleg.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2