Hafnarfjarðarbær tekur eins milljarðs króna lán til framkvæmda við Skarðshlíðarskóla

950 milljón kr. lán var tekið í fyrra vegna skólans sem byggja átti fyrir tekjur af sölu lóða

Áætlaður kostnaður við byggingu Skarðshlíðarskóla var um 4 milljarðar kr.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í gær að leggja til við bæjarstjórn Hafnarfjarðar  að sækja um eins milljarðs kr. lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga til fjármögnunar á Skarðshlíðarskóla. Er það rökstutt vegna þess óvissuástands sem nú sé yfirstandandi.

Virðist mikið liggja á því óskað er eftir því að veitt verði heimild að ganga frá allt að 1.000 milljónum króna skammtímafjármögnun þar til gengið verður frá endanlegri fjármögnun.

Í júlí 2019 var samþykkt 950 milljón kr. lántaka sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sögðu fyrst og fremst vera til að mæta fjárfestingu og framkvæmdum við Skarðshlíðarskóla. Bygging hans hófs árið 2017 og var kostnaðaráætlun upp á 4 milljarða kr. Var þá sagt að lóðasala í hverfinu myndi standa undir kostnaði við byggingu skólans.

Kjör Lánasjóðs á skammtímalánum miðað við stöðuna í dag eru óverðtryggðir 2,35% vextir. Er lagt til að bæjarstjóra verði veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Hafnarfjarðarkaupstaðar að undirrita lánssamninga við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

Skuldir og skuldbindingar Hafnarfjarðarkaupstaðar voru í heild 45,7 milljarðar kr. 30. júní 2019 og höfðu hækkað um tæpa 2,7 milljarða kr. á hálfu ári.

Svona hafa skuldir Hafnarfjarðarkaupstaðar þróast frá 2010 en kosningar voru 2010, 2014 og 2018.

Ummæli

Ummæli