Hafa sitt að segja um ráðningu starfsfólks

Flytja brátt inn í nýjan íbúðakjarna í Stuðlaskarði

Tilvonandi íbúar í Stuðlaskarði ásamt starfskonunum tveimur.

Þann 28. febrúar 2021 tóku sex væntanlegir íbúar fyrstu skóflustunguna að húsnæði sem Þroskahjálp reisir fyrir Vinabæ að Stuðlaskarði 2.

Hafði Hafnarfjarðarbær gert samning við sex fatlaða einstaklinga um byggingu og rekstur íbúðakjarna í Stuðlaskarði. Samningurinn á sér engin fordæmi því einstaklingarnir munu með viðeigandi aðstoð sjálfir sjá um skipulag og rekstur íbúðakjarnans en rekstrarfélagið Vinabær er í eigu íbúanna sem er nýmæli.

Nú er íbúakjarninn nánast fullbúinn og brátt munu íbúar flytja inn. Þroskahjálp byggir húsið og leigir einstaklingunum en Hafnarfjarðarbær mun greiða Vinabæ það fé sem þarf til rekstursins.

Þetta eru raðhús á einni hæð með sex 67 m² íbúðum og starfsmannaaðstaða.

Glaðir væntanlegir íbúar tóku fyrstu skóflustunguna undir hlíðum Ásfjalls.

Það sem er sérstakt við þessa framkvæmd er að það er hópur einstaklinga með Downs heilkenni, sem allir eru vinir, sem munu búa saman og á að ráða miklu um rekstur íbúðkjarnans og þá aðstoð sem íbúarnir fá. Markmiðið er að byggja húsnæði sem gerir fötluðu fólki kleift að búa á eigin heimili í samræmi við þarfir og óskir eftir því sem kostur er, tryggja þeim jafnrétti til búsetu og skapa skilyrði til eðlilegs lífs og þátttöku í samfélaginu.

Einstaklingarnir búa í dag í foreldrahúsum og stunda bæði vinnu og íþróttir auk þess að hafa öll lokið námi sínu í framhaldsskóla.

Koma sjálf að ráðningu starfsfólksins

Margrét Vala Marteinsdóttir

Íbúarnir hittust í kvöld í Fjörukránni og borðuðu saman en að því loknu var farið yfir hluta af 50 umsóknum um störf í íbúakjarnanum. Margrét Vala Marteinsdóttir, sem hefur verið ráðin forstöðukona Vinabæjar, eða Stuðlaskarð eins og íbúarnir ákváðu á aðalfundi að nefna félagið, segir þetta spennandi verkefni og að allir umsækjendur hafi í lok starfsviðtals, verið spurðir um það hvaða skilaboð þeir hefðu til íbúanna, þar sem þeir yrðu með að fara yfir umsóknirnar.

Alls reiknar Margrét Vala með að ráðnir verði 13-16 starfsmenn. Íbúarnir eru allir í vinnu en utan vinnutíma þeirra verður starfsfólk þeim til aðstoðar og stuðnings. Því er mikilvægt að íbúarnir hafi um það að segja hverjir verið ráðnir. Margrét Vala og Þórhildur Sölvadóttir verða í fullu starfi við íbúakjarnann en starfsmennirnir sem ráða á verða í hlutastörfum og hafa að hlutverki ekki síst að vera hvetjandi og hugmyndaríkir til að efla líflegt starf á heimilinu.

Margrét Vala hefur starfað hjá Reykjadal sl. 14 ár og var þar forstöðukona Jafningjaseturs.

Íbúarnar gerðu sér glaðan dag og fóru svo yfir umsóknir í kvöld með þeim Þórhildi og Margréti Völu.

Blaðamaður Fjarðarfrétta hitti tilvonandi íbúa ásamt Margréti Völu og Þórhildi í Fjörukránni í kvöld og var mikill hugur í fólki. Væntanlegu íbúarnir sögðust vera spenntir fyrir að flytja og voru búnir að koma sér saman um hvar hver ætti að búa. Þau voru þó ekki farin að setja niður í kassa en einhverjir voru farnir að huga að húsgagnakaupum eins og gerist þegar fólk er að flytja í glænýtt húsnæði. Þau sögðust vera vinir sem þekkst hafi frá því þau hafi verið lítil svo þau hlakkaði til að fá að búa saman í þessum íbúakjarna.

Svona mun húsið líta út.

Ummæli

Ummæli