fbpx
Fimmtudagur, febrúar 22, 2024
HeimFréttirGott aðgengi forsenda lifandi miðbæjar Hafnarfjarðar

Gott aðgengi forsenda lifandi miðbæjar Hafnarfjarðar

Bílastæðamál í brennidepli í miðbæ í mikilli þróun

Bílastæðamál í miðbænum eru í brennidepli núna og á fundi bæjarráðs sl. fimmtudag var sviðsstjóra falið að vinna erindisbréf fyrir starfshóp sem skoðar bílastæðamál í mið­bænum.
Guðmundur Bjarni Harðar­son, fram­kvæmdastjóri Fjarð­ar, segir nauðsynlegt að taka bílastæðin föstum tökum því lausn á bílastæðamálum sé forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu í miðbæ Hafnar­fjarðar.

Segir hann að bæta þurfi aðgengi að verslun og þjónustu í miðbæ Hafnarfjarðar og auka framboð bílastæða með stýr­ingu á umferð og mögulega með byggingu bílastæðakjallara eða bílastæðahúss.

Ekki ný umræða

Það er reyndar ekki nýtt af nálinni að athygli sé vakin á bílastæðamálum í miðbænum. Í desember 2002 lagði for­maður miðbæjarnefndar til að byggt yrði bílastæðahús við Linnets­stíg og í september 2015 lögðu Miðbæjarsamtökin til að klukkuskífur yrðu teknar upp í miðbænum til að stýra notkun á bíla­stæðum.

Þá sagði í skýrslu og til­lög­um starfshóps um skipulag í miðbæ Hafnarfjarðar frá 25.01.2021: „Finna þarf viðun­andi lausn er varða bílastæði“.

Einnig segir þar um miðbæi, að þeir þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði til að vaxa og dafna:

  • Miðbær þarf að vera aðgengi­legur, snyrti­legur og öruggur.
  • Hann verður að hafa sterkan staðaranda þar sem yfirbragð byggðar, verslun og þjónusta styrkja þessa ímynd.
  • Einhvers konar faglegt eftir­lit eða stjórnun verður að vera til staðar.
  • Miðbær þarf að vera skemmti­­legur og veita upplifun.

Ljóst sé að ef fyrirhugað er að byggja upp miðbæ Hafnar­fjarðar þannig að hann uppfylli öll þessi skilyrði þá þurfi að auka framboð og stýra notkun bílastæða og tryggja góða að­komu gesta og gangandi.

Deiliskipulag miðbæjar Hafnarfjarðar sem breytt hefur verið 24 sinnum á 22 árum.

Gjaldtaka verði tekin upp í miðbænum

Í greinargerð með aðalskipu­lagi mið­bæjarins frá 2001 eru sögð 832 bíla­stæði í mið­bænum, við Strandgötu, Linn­ets­stíg og Fjarðargötu. Af því eru um 100 stæði í bíla­stæða­kjallara Fjarðar.

Guðmundur Bjarni segir enga stýringu vera á notkun bílastæðanna. „Þau eru notuð sem langtímastæði af starfs­fólki í miðbæ Hafnarfjarðar, íbúum í miðbænum, ferða­löng­­um á leið í frí, af þeim sem ferðast með almennings­sam­göngum til Reykja­víkur og Kefla­víkur og til geymslu á endur­vinnslugámum og sorp­gámum.“

Guðmundur Bjarni bendir á að enginn hafi eftirlit með að misnotkun á bílastæðum eigi sér stað þó sums staðar hafi verið sett upp skilti sem takmarki tímalengd stöðu á bílastæðum.
Telur hann nauðsynlegt að sett verði upp sjálfvirkt kerfi og mynda­vélar við inn­keyrslu á svæðið og gjaldtaka tekin upp. Þó þannig að viðskiptavinir fái að leggja frítt í skamman tíma en eftir það verði hóflegt gjald tekið. Segir hann að taka þurfi tillit til íbúa á svæðinu í samræmi við ákvæði í eignaskiptar­samn­ingum og hann vill að boðið verði upp mánaðaráskrift að bílastæðum.

Fjarðarfréttir fjallaði um bíla­stæðamál í miðbænum 12. mars 2021 þar sem m.a. kom fram að samþykkt um Bíla­stæðasjóð Hafnarfjarðar frá 2017 hafi lítil áhrif haft og þrátt fyrir umræður hafi virst sem eng­inn hafi þorað að taka ákvörðun um gjald­töku eða aðra notkunarstýringu á bíla­stæðum í miðbænum.

Samþykkt um Bílastæðasjóð Hafnarfjarðar frá 2017 hefur lítil áhrif haft

Framtíðin

Ekkert varð úr heildarendurskoðun deiliskipulags miðbæjar Hafnarfjarðar sem þó hafði verið lögð töluverð vinna í og í þess stað var farið í að endurskoða miðbæjarskipulagið í áföngum. Fyrsti áfangi þess var endurskipulagning á svæði sem nefndur er reitur R1 og afmarkast af Strandgötu, Austurgötu og Linnetsstíg. Ljóst er að íbúum mun fjölga mikið á því svæði og bílastæðum fækka verulega. Sama er líklegt að gerist á reit R2 sem afmarkast af Fjarðargötu, Strandgötu og Linnetsstíg. Verði þar ekki gerð krafa um bíla­stæða­hús mun bílastæðum fækka þar verulega líka.

60-70% fjölgun gesta

Guðmundur Bjarni segir að nú sé hafin vinna við mikla stækkun Fjarðar með fjölmörgum íbúðum, hótelíbúðum, bóka­safni og verslunum.

„Þegar allt er tekið til má áætla að fjölgun gesta í miðbænum geti verið 60-70% og fjölg­un starfsmanna um 10-20%. Því þarf að bæta við að lágmarki 200-250 bíla­stæðum,“ segir Guðmundur Bjarni sem fagnar því að vilji sé til þess hjá bæjar­yfirvöldum að skoða bílastæða­málin í miðbænum.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2