fbpx
Föstudagur, október 4, 2024
HeimFréttirSamþykkt um Bílastæðasjóð Hafnarfjarðar frá 2017 hefur lítil áhrif haft

Samþykkt um Bílastæðasjóð Hafnarfjarðar frá 2017 hefur lítil áhrif haft

Enginn sinnir eftirliti með að reglum sé framfylgt

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti 15. febrúar 2017 Samþykkt um Bílastæðasjóð Hafnarfjarðar. Tillagan var samþykkt með 9 atkvæðum, einn bæjarfulltrúi var á móti og 1 sat hjá.

Verkefni Bílastæðasjóðs er að eiga bílastæði fyrir almenning utan skilgreindra lóða í miðbænum og víðar við götur og opin svæði. Stofnkostnaður og rekstur bílastæða, sem greiddur er úr Bílastæðasjóði skal bókfærast hjá sjóðnum skv. nánari ákvörðun bæjarráðs.

Kostnaður við byggingu og rekstur bílastæðahúsa auk bílskýla fyrir almenning á vegum bæjarins skal einnig bókfærður hjá sjóðnum, svo og ef svæði eru leigð af einkaaðilum undir bílastæði. 

Til Bílastæðasjóðs skulu renna tekjur af stöðumælum og leigu stöðureita, aukastöðugjald og önnur gjöld vegna stöðubrota. Til sjóðsins renna ennfremur tekjur af leigu bílastæða jafnt úti sem í sérstökum bílastæðahúsum, sem leigð eru til lengri eða skemmri tíma. Þá fær sjóðurinn tekjur af greiddum bílastæðagjöldum, þegar húsbyggjendur greiða bílastæðagjöld skv. sérstakri samþykkt þar um. Ennfremur getur verið um að ræða framlög úr bæjarsjóði eða lántökur með ábyrgð bæjarsjóðs eða tryggðar með veði í mannvirkjum, sem bókfærð eru hjá Bílastæðasjóði.

Fólk kemst upp með að leggja uppi á gangstétt, jafnvel beint á móti skrifstofu bæjarstjóra.

Á fundi bæjarráðs viku síðar var lögð fram tillaga um að fela skipulags- og umhverfisþjónustu að koma með tillögu að úrvinnslu málsins. Ekki kom fram í fundargerð, hver lagði þá tillögu fram né hvað fælist í hugtakinu um úrvinnslu málsins.

Samþykkti bæjarráð að fela skipulags- og umhverfisþjónustu að gera tillögu að úrvinnslu málsins.

Furðaði áheyrnarfulltrúi sig á því í bókun á fundinum að nú lægi fyrir í bæjarráði tillaga um að fela skipulags- og umhverfisþjónustu að koma með tillögu um „skífubílastæði“ eins og boðað var í fundarboðun sem hefði svo verið breytt í að fela skipulags- og umhverfisþjónustu að gera tillögu að málinu.

Einföld bílastæðaskífa í dönskum bíl.

Taldi litla fagleg umræðu hafa verið um málið

„Við samþykkt bæjarstjórnar á samþykkt um Bílastæðasjóð Hafnarfjarðar sem lögð var fram á síðasta bæjarstjórnarfundi og unnin var að tillögu fulltrúa meirihluta Sjálfstæðismanna og Bjartrar framtíðar, kannaðist enginn í meirihlutanum við að til stæði að setja stöðumæla og skífustæði því engin ákvörðun lægi fyrir. Nú hins vegar liggur einmitt fyrir tillaga um að skoða skífustæði.“

Fyrirtæki nýta sér jafnvel almenningsstæði til að leggja auglýsingabílum í langan tíma.

Á bæjarstjórnarfundinum 15. febrúar 2017 bókaði fulltrúi Vinstri grænna og furðaði sig á því að bæjarstjórn Hafnarfjarðar skuli samþykkja samþykkt um Bílastæðasjóð Hafnarfjarðar, þar sem kveðið er á um stofnun Bílastæðasjóðs Hafnarfjarðar þar sem m.a. væru í samþykktinni ákvæði um klukkustæði og stöðumælastæði og heimildir til gjaldtöku vegna bílastæða í Hafnarfirði, án þess að tekin hafi verið um það sérstök ákvörðun og hvað þá tekin vitsmunaleg og fagleg umræða með aðkomu almennings um hvort eigi að hefja gjaldtöku bílastæða í Hafnarfirði eða ekki.

Tillaga um skífustæði í miðbænum og Tjarnarvöllum

Gert var ráð fyrir að ystu 380 af 690 stæðum við Tjarnarvelli yrðu gjaldskyld og hámark 2-4 tíma.

Það er svo ekki fyrr en 2. nóvember 2017 sem lögð er fram tillaga í bæjarráði um 700 klukkustæði í miðbænum og 380 klukkustæði á Tjarnarvöllum. Í fundargerð er engin afstaða tekin í málinu og sagt að málið sé tekið til umræðu.

Tillaga um klukkustæði í miðbænum, svæði merkt rauðu eru fyrir 2-4 klst. og svæði merkt grænu fyrir 1-2 stundir.

Það er svo aftur 10. júlí 2018 sem málið er tekið fyrir í skipulags- og byggingarráði og bókað í fundargerð að skipulags- og byggingarráð feli umhverfis- og skipulagsþjónustu að kanna kostnað við eftirlit og gjaldtöku vegna bílastæða í Miðbæ og á miðsvæði Tjarnarvalla.

Bæjarráð tekur svo málið fyrir 2. október sama ár þar sem getið er í fundargerð að forstöðumaður framkvæmda- og rekstrardeildar hafi kynnt tillögur um bílastæði í miðbæ Hafnarfjarðar og að bæjarráð vísaði málinu til frekari skoðunar í skipulags- og byggingarráði.

Mörg bílastæði í miðbænum eru á byggingarlóðum.

Markaðsstofa Hafnarfjarðar blandar sér í málið

Ekkert virðist svo gerast í málinu fyrr en 27. janúar sl. er tekið er fyrir á fundu umhverfis- og framkvæmdaráðs, erindi Markaðsstofu Hafnarfjarðar um skammtímastæði í miðbænum. Engar upplýsingar eru í fundargerð um tillöguna sagt að ráðið taki jákvætt í erindið og samþykkti að merkingar skammtímastæða verði lagfærðar. Erindi um skammtímastæði við Vesturgötu var hins vegar vísað til skipulags- og byggingarráðs.

Skipulags- og byggingarráð fundaði svo 9. febrúar sl. og samþykkti að vísa málinu inn í deiliskipulagsvinnu vesturbæjar og áframhaldandi vinnu við deiliskipulag miðbæjarins líkt og fram kæmi í skýrslu og tillögum starfshópsins er varða bílastæðamál miðbæjarins. Jafnframt var lögð áhersla á að málið yrði unnið hratt og vel.

Ákvörðunartökufælni?

Umræður um stýringu á notkun bílastæða í miðbænum hefur staðið yfir í mjög langan tíma og jafnvel áratugi. Hefur sú umræða blandast við umræðu um bílastæðamál almennt í bænum og tregðu lögreglu til að sekta þá sem brjóta reglur um lagningu bifreiða í bænum.

Hafa verið sett upp skilti um tímalengd stöðu bifreiða í miðbænum en enginn hefur sinnt eftirlit með því hvort reglunum sé fylgt.

Á vistgögu má aðeins leggja á þar til merktum stæðum. Gangstéttin er vinsælt bælastæði og ekkert er að gert.

Af hverju skífustæði

Svo virðist sem mikil andstaða hafi verið gegn gjaldtöku í miðbænum og því hefur oftast verið bent á sk. skífustæði þar sem ökumenn þurfa að stilla skífu, sem sett er á framrúðu bíla, og þannig hægt að fylgjast með því hvort reglum um tímalengd er uppfyllt. Slíkt hefur gefið góða raun, m.a. í nágrannalöndunum og á Akureyri.

Forsenda fyrir slíku er að stofnaður væri bílastæðasjóður, sem gert var loks 2017, og að ráðnir yrðu starfsmenn til að fylgja því eftir hvort reglum yrði sinnt og annast sektarinnheimtu en með þessu kerfi eru það skussarnir sem greiða reksturinn.

Aðrir hafa bent á ýmis símaforrit sem nota megi til að stýra tímalengd lagningu bíla en slíkt hefur yfirleitt með sér kostnað í för með sér fyrir bíleigandann.

Bæjarbúar eiga bílakjallara!

Kannski vita það ekki allir, en Hafnarfjarðarbær á bílakjallarann í Firði og er því meira segja haldið fram að bærinn hafi þurft að greiða fyrir hann tvisvar.

Úr bílastæðakjallaranum í Firði sem er í eigu bæjarbúa.

Þar er engin stýring á notkun bílastæðanna og stundum er þar engin stæði að finna t.d. fyrir þá sem þurfa að sækja þjónustu á Heilsugæsluna. Þar eru bílar jafnvel í marga daga og starfsfólk leggur bílum sínum þar daglangt en gestir og viðskiptavinir þurfa að leita annað. Oft eru hins vegar næg bílastæði enda bílakjallarinn ekkert auglýstur.

Bílastæðum mun fækka

Bílastæðum mun fækka í miðbænum enda eru í dag bílastæði á lóðum sem þegar er gert ráð fyrir byggingum á og engar kröfur hafa verið settar um bílakjallara í húsum sem næst verða byggð í miðbænum. Byggjendur fá að leysa málin með að greiða bílastæðagjöld en þó er hvergi að finna neinn raunverulega bílastæðasjóð, a.m.k. ekki ennþá.

Almenningsbílastæði eru illa notuð og fólk kemst upp með að geyma þar númerslausa bíla.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2