fbpx
Fimmtudagur, desember 12, 2024
target="_blank"
HeimFréttirGiftusamleg björgun á flutningaskipi sem rak upp í grjótgarð í Hafnarfjarðarhöfn

Giftusamleg björgun á flutningaskipi sem rak upp í grjótgarð í Hafnarfjarðarhöfn

4.000 lesta flutningaskip slitnaði frá bryggju við Hvaleyrarbakka

Flutningaskipið  Francisca sem lá við Hvaleyrarbakka í Hafnarfjarðarhöfn losnaði frá bryggju í nótt. Skipstjórinn hafði samband við Landhelgisgæsluna um hálf sex og sagði skipið vera að reka upp í olíugarðinn við höfnina. Þegar var kallað eftir aðstoð dráttarbáts í Hafnarfirði og Reykjavík, auk björgunarsveita.

Flutningaskipið við Suðurgarðinn og dráttarbáturinn Hamar

Skipið, sem er um 4.000 lestir og galtómt, rak upp að grjótgarðinum, vestan við olíuhöfnina á Suðurgarði, og lá þar skorðað og virtist hreyfast lítið.

Dráttarbáturinn Hamar var til taks við skipið en mátti sín lítið við svona stórt skip og hafði taug einu sinni slitnað á milli skipanna. Rétt upp úr kl. 8 í morgun kom dráttarbáturinn Magni á staðinn og var dráttartaug komið á milli skipanna auk þess sem dráttarbáturinn Hamar hélt við skipið. Það gekk mjög greiðlega og um 20 mínútum seinna var Magni farinn að toga framenda flutningaskipsins frá grjótgarðinum. Greiðlega gekk að ná skipinu frá grjótgarðinum. Rak skipið þó til baka að garðinum að norðanverðum en stefndi þá út úr höfninni. Mun það hafa verið gert til að snúa skipinu upp í vindinn en mikið dýpi er þarna. Fljótlega dró Magni skipið að bryggju við Hvaleyrarbakkann. Það gekk nokkuð greiðlega en litlu munaði að skutur skipsins rækist á grænlenska togarann Masilik en skipið kom mjög hratt með afturhlutann að bryggjunni. Allt fór þó vel og unnið var fumlaust á staðnum.

Símamyndband sem sýnir þegar skipið er dregið frá grjótgarðinum © Guðni Gíslason

Björgunarsveitir úr Hafnarfirði og Garðabæ ásamt stjórnstöðvarbíl voru í viðbragðsstöðu á meðan.

Ekki er vitað um skemmdir á skipinu en þó hefur ekki komið leki á olíutanka. Skv. upplýsingum hafnarstjóra munur kafarar kanna skemmdir á skipinu í hádeginu.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2