„Einu sinni voru ekki öryggisbelti í bílum en í dag er enginn bíll seldur án öryggisbelta. Við lítum svo á að sama sagan sé að endurtaka sig í byggingarstarfsemi. Núna byggjum við fyrstu umhverfisvottuðu byggingarnar en í náinni framtíð verða allar byggingar umhverfisvottaðar,“ segir Ingimundur Þór Þorsteinsson hjá RENTUR starfsemi ehf. sem er að afhenda fyrstu svansvottuðu íbúðina í íbúðakjarna að Hádegisskarði 20.
Segir hann að byggingarreglugerðin muni einfaldlega breytast til samræmis við þær reglur sem umvherfisvottun byggir á í dag. „Annar vinkill er sá að umhverfisvottuð hús verða klárlega í framtíðinni mun söluhæfari vara því hún virkar eins og ákveðin trygging fyrir gæðum,“ segir Ingimundur og bætir við að skemmtilegasti vinkillinn sé þó sá að Hafnarfjarðarbær veitti afslátt af lóðum ef byggt var umhverfisvottað en þeir hafi kosið að líta þannig á að allir hinir hafi greitt sekt frekar en að þeir hafi fengið afslátt. „Umfram allt var það þó hugsjón sem réði því að við ákváðum að byggja svansvottað,“ segir Ingimundur stoltur af húsunum við Hádegisskarð.
Svansvottun er ekki bara spurning um að byggingarefni og byggingarmáti séu ekki skaðleg fyrir umhverfið heldur kannski fyrst og fremst að tryggð sé hollusta þess sem ætlar að búa í húsunum.

Húsin að Hádegisskarði 20 eru reist úr krossviðareiningum (e. CLT) og eru hin glæsilegustu. Í húsunum er loftskiptikerfi sem tryggir íbúunum meiri lífsgæði og segir Ingimundur að þau séu í raun lungu heimilisins.


Ingimundur segir krosslímtré binda kolefni á meðan steypa losar kolefni. „Það mætti því spyrja væntanlega íbúa: „Hvort viltu búa í skógi eða járnbentum steyptum helli?“.
Ingimundur segir að það væri þeim í hag að kaupendur gerðu rækilegan samanburð á þeim íbúðum sem valkostirnir standa um.
Aðspurður hvort svansvottuð hús væru dýrari en önnur hús sagði hann að þetta væri miklu meiri spurning um gæði heldur en verð.
Formleg afhending var á Svansvottuninni frá UST í morgun en vottunin gildir fyrir íbúðirnar að Hádegisskarði 20 og Drangsskarði 11.
Segir Ingimundur þetta fyrstu Svansvottuðu byggingarnar í Hafnarfirði.
Opið hús
Í tilefni af vottuninni verður í samvinnu við Umhverfisstofnun opið hús á sunnudaginn í Hádegisskarði 20 milli kl. 13 og 14 og verður þá svarað spurningum gesta um svansvottun.

Sjá nánar um verkefnið hér.




