Fyrstu smitin koma frá Bandaríkjunum sem loka á Ísland

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Donald Trump foseti Bandaríkjanna er hann tilkynnir ferðabannið.

103 einstaklingar hafa nú verið greindir með Covid-19 hér á landi. Frá því í gærkvöldi hafa fimmtán tilfelli af veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdóminum verið greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Samtals hafa 103 einstaklingar verið greindir hér á landi. 80 smit tengjast ferðum erlendis en 23 eru innanlandssmit. Um 1.000 sýni hafa verið tekin í heild.

Uppruna flestra smita má rekja til Norður-Ítalíu og skíðasvæða í Ölpunum en þrjú smit hafa greinst frá einstaklingum sem komu hingað frá Bandaríkjunum.

Utanríkisráðherra mótmælir ákvörðun Trumps

Íslensk stjórnvöld hafa í morgun komið á framfæri hörðum mótmælum við aðgerðum sem bandarísk stjórnvöld kynntu í gærkvöldi. Þær fela í sér komubann ferðamanna sem dvalið hafa í Schengen-ríkjum og munu geta haft alvarleg áhrif á Íslandi, einkum fyrir ferðaþjónustu.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í morgun samtal við sendiherra Bandaríkjanna, og í kjölfarið fund með staðgengli hans, til þess að koma mótmælum á framfæri. Ráðherra hefur í þessum samtölum við bandarísk stjórnvöld lagt á það ríka áherslu að Ísland verði undanþegið ákvæðunum í ljósi landfræðilegrar sérstöðu sinnar og víðtækra aðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til til að hefta útbreiðslu COVID-19 hér á landi.

Guðlaugur Þór hefur óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd við fyrsta tækifæri til að ræða þá stöðu sem upp er komin.

Ummæli

Ummæli