Fjölgun hjúkrunarrýma á Sólvangi í uppnámi eftir stefnubreytingu heilbrigðisráðherra

Er Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að svíkja gefin loforð um Sólvang?

Áætlanir um fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði með endurbótum á gamla Sólvangi eru í uppnámi þar sem Hafnarfjarðarbæ stendur ekki lengur til boða hin svokallaða leiguleið né 85/15% kostnaðarleiðin skv. svörum frá heilbrigðisráðuneytinu.

Gerði fulltrúi Samfylkingarinnar alvarlegar athugasemdir við að fjölskylduráð hafi ekki verið upplýst um þessa stöðu fyrr en á síðasta fundi ráðsins þann 17. febrúar sl. eða tveimur og hálfum mánuði eftir að staðan var ljós. Sagði hann það algjört grundvallaratriði í góðri stjórnsýslu að kjörnir fulltrúar séu upplýstir um þau mál sem þeim er falið að fjalla um.

Ekki í uppnámi að sögn fulltrúa meirihlutans

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra höfnuðu því á fundi fjölskylduráðs í dag að fyrirhugaðar endurbætur á eldra húsi Sólvangs séu í uppnámi og sögðu að viðræður stæðu yfir við ríkið varðandi kostnaðarskiptingu á verkefninu.

Heilbrigðisráðuneyti heimilaði rekstur allt að 33 nýrra hjúkrunarrýma

Fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar fóru á fund heilbrigðisráðuneytisins í október 2019 og var óskað svara annars vegar við því hvort hægt væri að halda áfram með rekstrarform leiguleiðarinnar fyrir ný 33 rými sem bætast við á gamla Sólvangi. Hins vegar var óskað svara við því hvort hægt væri að skipta yfir í 85%/15% kostnaðarleiðina með framkvæmdir á húsinu og skila þá framlaginu frá Framkvæmdasjóði aldraðra.

Í svari frá ráðuneytinu sem barst 4. desember sl. segir m.a.: „Málið hefur nú verið skoðað hér í ráðuneytinu og niðurstaðan er sú að ekki er hægt að halda áfram með rekstrarform leiguleiðarinnar fyrir þessi 33 rými þar sem leiguleiðin var tímabundin ráðstöfun sem nú er lokið. Hins vegar er það Hafnarfjarðarbæjar að sjá um rekstur þessara nýju rýma og frjálst að fela það þriðja aðila, hvort sem það er núverandi rekstraraðili eða annar. Varðandi seinni spurninguna er það ljóst að ekki er hægt að fara aðra leið en þá sem þegar hefur verið hafin, þ.e. með aðkomu Framkvæmdasjóðs aldraðra, þar sem húsnæðið er í eigu sveitarfélagsins.“

Kemur verulega á óvart

Segir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar í greinargerð um málið að fullyrðing ráðuneytisins um að það sé Hafnarfjarðarbæjar að sjá um rekstur nýju rýmanna komi verulega á óvart.

Segir hún að í samtölum við ráðuneytið hafi verið gengið út frá því að það sé ríkisins að semja við rekstraraðila eins og gert var vegna nýja heimilisins. Algjörlega sé óeðlilegt að vera með fleiri en einn rekstraraðila að þjónustu við eldri borgara á Sólvangssvæðinu. Auk þess bendir hún á að í bréfi frá ráðuneytinu, þar sem fjallað er um tímabundinn rekstur hjúkrunarrýma í eldra húsnæði Sólvangs og dagsett er 23. janúar 2019 segi: „Gert er ráð fyrir að sami rekstraraðili sjái um rekstur þessara tímabundnu rýma og þeirra 60 hjúkrunarrýma sem verða í nýja Sólvangshúsinu, sem og rekstur þeirra 33 hjúkrunarrýma sem tekin verða í notkun eftir áður nefndar endurbætur.“

Bæjarstjóri ítrekar kröfur Hafnarfjarðarbæjar í bréfi til ráðherra

Í ítarlegu bréfi bæjarstjóra til heilbrigðisráðherra, og byggir á greinargerð Rannveigar, er ítrekuð sú krafa Hafnarfjarðarbæjar að farin verði leiguleiðin við endurbætur á gamla Sólvangi ellegar skipti yfir í 85/15% kostnaðarskiptingu.

Þá er lögð áhersla á að heilbrigðisráðuneytið semji við rekstraraðila um rekstur 33 nýrra rýma á gamla Sólvangi.

Lesa má bréf bæjarstjórans hér.

 

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here